Hópurinn á Indlandi kominn heilu og höldnu niður á láglendi

Ungmennin fimm úr Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, sem ætluðu að klífa fjallið Shivling á Indlandi, eru nú komin niður á láglendið, tæpum 6000 metrum neðar en þar sem þau gistu í þriðju búðum um síðustu helgi og er hitamismunurinn 40 gráður. Þau eru öll við hestaheilsu, ekkert kalin en örlítið sólbrunnin.  

Þau Berglind Aðalsteinsdóttir, tvíburabræðurnir Gunnar Sverrir Ragnars og Eiríkur Geir Ragnars, Kári Erlingsson og Arnar Þór Emilsson eyddu rúmum tveimur vikum á fjallinu. Shivling er 6.543 metra hátt og komst hópurinn langleiðina upp á tind fjallsins eða í um 6.120 metra hæð. Þar þurfti hannað snúa við vegna veðurs og erfiðra aðstæðna. Akureysku ungmennin segja á vefsíðu sinni að það hafi auðvitað verið gríðarleg vonbrigði að hafa ekki náð tindinum en að því takmarki höfðu þau stefnt í marga mánuði. "Fjallið er samt þarna ennþá og við erum ennþá hérna," bæta þau við.

Einnig kemur fram á vefsíðunni að því miður hafi þau ekki haft tíma til bíða í nokkra daga og sjá hvort aðstæður breyttust þarna uppi, þannig að hægt yrði að gera aðra tilraun við tindinn. "Til að bæta gráu ofan á svart, vorum við líka að verða matarlaus þarna á hryggnum en himalayarefur hafði komist í matarbirgðirnar á hryggnum og étið og stolið miklu af matnum okkar," segja ungmenninn einnig á vefsíðu sinni . Þetta var í fyrsta sinn sem íslenskur leiðangur freistar þess að ganga á fjallið, sem þykir eftirsóknarvert takmark bestu fjallgöngumanna heims. Aðeins einn hópur fær leyfi til að reyna við fjallið í einu.

Nýjast