„Heimsmet í galskap!“
„Þegar fyrir liggur að á Norðausturlandi rís annars vegar raforkuver og hins vegar verksmiðja sem á að nota orkuna en ekki má leggja línur þar á milli til að væntanlegur orkukaupandi getið stungið í samband ... ja það er galið. Það hlýtur jafnvel að kallast heimsmet í galskap!“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í dag.
Á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að ummælin hafi fallið í samtali Bjarna og Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga en Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri, stjórnaði spjalli ráðherrans og formannsins.
Það kom því nokkuð skýrt fram að fjármálaráðherrann ætlar að fylgja því fast eftir að Alþingi samþykki nýkynnt frumvarp um heimild fyrir Landsnet til að reisa og reka raflínur milli Þeistareykjavirkjunar og iðnaðarsvæðisins á Bakka.