Formaður bæjarráðs Akureyrar svarar gagnrýni um lóðarskort í bænum

Séð yfir Naustahverfi. Mynd/Þorgeir Baldursson.
Séð yfir Naustahverfi. Mynd/Þorgeir Baldursson.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, fer yfir stöðu mála á lóðum og uppbyggingu íbúða í bænum í færslu á Facebook. Mikið hefur rætt um skort á lóðum en í viðtali við Vikublaðið sagði Sigurður Sigurðsson framkvæmdstjóri SS Byggi að alvarlegur lóðaskortur sé á Akureyri og bæjarfélagið sé að missa fólk úr bænum.

Guðmundur virðist gefa lítið fyrir það.

„Af gefnu tilefni vegna mikillar umræðu um íbúðaskort á Akureyri og vandræði verktaka á að fá lóðir þá er rétt að upplýsa í fáeinum orðum stöðu mála hér í bæ. Eftir nokkur rýr ár í kjölfar hrunsins hafa íbúðabyggingar farið á gott skrið á liðnum árum og frá árinu 2015 hafa að meðaltali 170 íbúðir verið fullkláraðar árlega. Nú liggur fyrir að ríflega 200 íbúðir klárast í Hagahverfi á þessu ári og búast má við að framkvæmdir hefjist við um 180 íbúðir í Hagahverfi á árinu.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Þá hefur 89 íbúðum verið úthlutað annars staðar í bænum sem fara vonandi í framkvæmdir á þessu ári, þar á meðal spennandi uppbygging við Austurbrú. Þá er ótalið að í haust koma til úthlutunar lóðir í Holtahverfi þar sem um er að ræða tæplega 300 íbúðir þar sem framkvæmdir gætu hafist á árinu 2022. Við gætum því séð yfir 500 íbúðir koma inn í nýjar framkvæmdir á árunum 2021-2023 auk þeirra 200 íbúða sem fullklárast á þessu ári.

Í kjölfarið verður svo komið skipulag fyrir Kollugerðishaga en þar verður framtíðaruppbygging og gert ráð fyrir ríflega 700 íbúðum í fyrri áfanga þess skipulags en um 1300 íbúðum alls.

Það er því óhætt að segja að uppbygging íbúða í bænum hafi verið afar kröftug á síðustu árum og bjart sé framundan,“ skrifar Guðmundur.


Athugasemdir

Nýjast