Segir alvarlegan lóðaskort á Akureyri og sveitarfélagið vera missa íbúa

Akureyri.
Akureyri.

Sigurður Sigurðursson framkvæmdastjóri SS Byggir segir lóðaskortinn á Akureyri alvarlegt vandamál og úr því þurfi að bæta fljótt og markvisst. Sigurður var nýlega í ítarlegu viðtali í Vikublaðinu en talsvert hefur verið rætt og ritað um mögulega þéttingu byggðar á Eyrinni og í Tónatröð að undanförnu og sitt sýnist hverjum.

„SS Byggir brást við lóðaskortinum með því að hefja uppbyggingu Hálanda í Hlíðarfjalli. Þar höfum við reist og afhent 52 hús og bætum 15 við í ár. Þau eru öll seld og skapa Akureyrarbæ umtalsverðar tekjur en lítinn sem engan tilkostnað. Við greiðum full gatnagerðargjöld en hönnum og leggjum göturnar sjálfir. Þetta verkefni hefur skapað starfsfólki okkar nauðsynlega vinnu á erfiðum tímum og ekki síður fjölmörgum undirverktökum.“

Hann segir tregðu skipulagsyfirvalda á Akureyri mikla í öllu afgreiðsluferlinu. Enn sé „ekkert að frétta“ af Eyrinni og SS Byggir vilji ekki eyða milljónum í hönnunarkostnað varðandi fyrirhugaðar byggingar í Tónatröð ef það verkefni lendi í sama tregðuferli og margt annað hjá bænum. „Útlitið á húsunum í Tónatröðinni yrði mjög vandað og kappkostað að ná sem breiðastri sátt um það, ef eða þegar þar að kemur,“ segir Sigurður. Hann segir að það, að tryggja ekki byggingafyrirtækjum öruggt framboð lóða, megi flokka undir metnaðarlitla stjórnsýslu.

„Þegar horft er til fjölgunar íbúa stærstu byggðakjarna landsins, sést vel að Akureyri hefur dregist verulega aftur úr Kópavogi, Hafnafirði og nú síðast Reykjanesbæ. Fljótlega má gera ráð fyrir að Árborg, Mosfellsbær og jafnvel fleiri sveitarfélög sigli einnig fram úr Akureyri. Á sama tíma er hér endalaust karpað um skipulagsmál og engar lóðir til undir fjölbýlishús og ekkert úrval lóða almennt. Hver er framtíðarsýn okkar Akureyringa í skipulags- og byggðarþróunarmálum?“ spyr Sigurður.

Sigurður Sigurðsson

Hann segir ekki að ástæðulausu að fyrirtæki hans og fleiri byggingaverktakar séu að leita eftir að byggja á hentugum lóðum í bæjarlandinu. „Staðreyndin er sú að samkvæmt vef Akureyararbæjar frá því í gær eru nákvæmlega TVÆR lóðir lausar  á gervallri Akureyri og báðar undir einbýlishús! SS Byggir framleiðir að meðaltali eina fasteign á viku, árið um kring.“  Sigurður segir að því fólki fjölgi stöðugt sem vilji búa nálægt hjarta bæjarins og minnka kolefnissporið sitt með því að hætta akstri til og frá úthverfunum. Þeir sem vilji búa hátt uppi og njóta útsýnis hafi heldur ekki um marga kosti að velja, aðra en þá að flytja yfir í Svalbarðsstrandarhrepp.

„Þeim fer stöðugt fjölgandi sem velja þann kost að flytja í nærliggjandi sveitarfélög þar sem meira framboð er af lóðum, ekki bara yfir í Heiði heldur líka í Hörgárbyggð og Eyjafjarðarsveit. Það er dýrt fyrir sveitarfélagið okkar, Akureyrarbæ, að sjá á eftir útsvarsgreiðslum og fasteignagjöldum heilu fjölskyldnanna um „aldur og ævi“ yfir í önnur sveitarfélög af þessari ástæðu. Það er tími til kominn að við stöndum með bænum okkar og svörum kalli nútímans,“ segir Sigurður.


Athugasemdir

Nýjast