Fjölbreytt dagskrá á Akureyrarvöku um helgina
Það má segja að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands þjófstarti Akureyrarvöku með töfratónleikum í Hofi og eftir að búið er að setja Akureyrarvöku getur fólk m.a valið að læðast um meðal drauga og annarra óhugnalegra vera á Draugaslóðinni í Innbænum eða skella sér á rómantískt bryggjuball á Torfunefsbryggju en á þessum tíma verður hjartað í Vaðlaheiði aftur farið að slá.
Á laugardaginn verður m.a. boðið heim í söng og súkkulaði á Galtalæk og Nostalgíuflipp í Litla Garði á meðan sápukúlur fylla loftið á Barnagaman við Ráðhústorg, flóamarkaðsstemning m.a. í kirkjutröppunum og hægt verður að gæða sér á heilgrilluðu nauti. Myndlistin skipar ætíð stóran sess á Akureyrarvöku og verða án efa margir sem munu ganga fram og til baka Menningarbrautina sem lögð verður í Listagilinu til að sjá sýningar í öllum galleríum og sýningarsölum Listagilsins. Að kvöldi laugardags verður áhersla lögð á einstaka eyfirska hönnun á hinum ýmsu stöðum í miðbænum. Sýndir verða dansar frá Kúbu, Íslandi, Tælandi og nikkurnar þandar með heybagga allt um kring. Sirkus Íslands mætir á svæðið með einstakt sirkusshow og trix sem enginn ætti að reyna heima við!
Á sunnudaginn er upplagt að kynna sér landnámsmanninn Helga magra á fyrirlestri Hólmsteins Snædal og heimsækja svo hið eins árs gamla glaðbeitta afmælisbarn, Menningarhúsið Hof sem verður með opið hús á sunnudeginum og býður upp á afmælisköku, beina útsendingu á þættinum Gestir út um allt á Rás 2 og ýmislegt skemmtilegt. Þetta er aðeins brotabrot af dagskránni, segir í fréttatilkynningu en heildina er að finna á vefnum http://vikudagur.is/www.visitakureyri.is