Fjölbreytt dagskrá á Akureyrarvöku um helgina

Enn og aftur gerast ævintýr á Akureyrarvöku sem sett verður í Lystigarðinum á föstudagskvöldið klukkan 21 með eldheitu kúbönsku salsa og álfaveislu, og mun Akureyrarvaka standa fram á sunnudag. Þátttakendum fer alltaf fjölgandi og eru viðburðirnir, sem eru af öllum stærðum og gerðum og koma úr fjölda listgreina að nálgast hundraðið.  

Það má segja að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands þjófstarti Akureyrarvöku með töfratónleikum í Hofi og eftir að búið er að setja Akureyrarvöku getur fólk m.a valið að læðast um meðal drauga og annarra óhugnalegra vera á Draugaslóðinni í Innbænum eða skella sér á rómantískt bryggjuball á Torfunefsbryggju en á þessum tíma verður hjartað í Vaðlaheiði aftur farið að slá.

Á laugardaginn verður m.a. boðið heim í söng og súkkulaði á Galtalæk og Nostalgíuflipp í Litla Garði á meðan sápukúlur fylla loftið á Barnagaman við Ráðhústorg, flóamarkaðsstemning m.a. í kirkjutröppunum og hægt verður að gæða sér á heilgrilluðu nauti.  Myndlistin skipar ætíð stóran sess á Akureyrarvöku og verða án efa margir sem munu ganga fram og til baka Menningarbrautina sem lögð verður í Listagilinu til að sjá sýningar í öllum galleríum og sýningarsölum Listagilsins. Að kvöldi laugardags verður áhersla lögð á einstaka eyfirska hönnun á hinum ýmsu stöðum í miðbænum. Sýndir verða dansar frá Kúbu, Íslandi, Tælandi og nikkurnar þandar með heybagga allt um kring.  Sirkus Íslands mætir á svæðið með einstakt sirkusshow og trix sem enginn ætti að reyna heima við!

Á sunnudaginn er upplagt að kynna sér landnámsmanninn Helga magra á fyrirlestri Hólmsteins Snædal og heimsækja svo hið eins árs gamla glaðbeitta afmælisbarn, Menningarhúsið Hof sem verður með opið hús á sunnudeginum og býður upp á afmælisköku, beina útsendingu á þættinum Gestir út um allt á Rás 2 og ýmislegt skemmtilegt. Þetta er aðeins brotabrot af dagskránni, segir í fréttatilkynningu en heildina er að finna á vefnum http://vikudagur.is/www.visitakureyri.is

Nýjast