„Eldarnir læstu sig um köstinn og stigu hvæsandi til himins“

  • Gamli Eyrarpúkinn heilsar nýja árinu með sínum þriðja pistli um uppvaxtarár sín á Eyrinni

Eyrarpúki

Stóra útihurð barnaskóla Íslands laukst upp og fyrr en varði voru breiðu tröppurnar fyrir neðan eins og straumharður foss þegar við krakkarnir runnum þar niður í gleði okkar.  Það var komið jólafrí.  Hópurinn skiptist í þrjá meginstrauma þegar tröppunum lauk. Krakkarnir af suðurbrekkunni og innbænum fóru í halarófu suður fyrir skólann. Þau sem komu af norðurbrekkunni skunduðu beint í vestur fram hjá kartöflugeymslunum og við sem vorum af Eyrinni og miðbænum  gengum rakleitt til austurs, norðan við kirkjuna.  Sjálfur hljóp ég með félögum mínum niður kirkjutröppurnar og óðar kominn á sjálft kaupfélagstorgið þar sem jólastjarnan sveif yfir.  Auðvitað var jólaundirbúningurinn ofarlega í huga okkar Eyrarpúkanna þegar við vorum þarna að gluða í jólafríið - en fleira var á dagskránni.  Boð hafði komið frá foringjum okkar strákanna á norðureyrinni að tímabært væri að fara að undirbúa brennuna á gamlárskvöld.

Fyrsta verkið var að tryggja okkur þrjár af risastóru trérúllunum sem geymt höfðu rafkaplana og búið var að grafa í götur bæjarins. Rúllurnar stóðu í haugum norðan við Ægisgötu og ekkert sagt við því þó við tækjum þrjár misstórar traustataki í brennuna okkar. Síðan þurfti að finna aflagðan tréljósastaur, spýtnabrak úr fiskhjöllunum sem lá þar víða á dreif og hverskonar tré og pappaafganga úr görðum og skúmaskotum.  Að lokum var svo að tryggja okkur einn til tvo nótabáta sem hafði verið lagt og voru kjörinn eldiviður enda gegnsósa af tjöru. Þá þurfti að semja við snillinga eins og Nóa bátasmið að kljúfa þá eftir endilöngu svo við gætum komið þeim á vörubíl sem vinir okkar á Stefni björguðu okkur með. Þegar öllu þessu hafði verið safnað saman í kartöflugörðunum sunnan Slippsins tók við að móta brennuna sjálfa eftir kúnstarinnar reglum.

Í upphafi var grafin tveggja feta djúp hola með sama þvermál og ljósastaurinn.  Því næst veltum við stærstu rúllunni á hliðina og stilltum gatið á henni miðri við holuna. Síðan var þrautin þyngri að koma næst stærstu rúllunni upp á þá stærstu en með útsjónarsemi og sameiginlegu átaki tókst það. Fyrst reyndi þó verulega á okkur þegar kom að þriðju rúllunni þarna í kartöflugarðinum. Mikil hróp og köll, svita lagði af hverju enni þessara galvösku púlsmanna, einhver rak við í látunum og allir skellihlógu.  Loks tókst að mismuna minnstu rúllunni upp á hinar tvær og stilla síðan allar saman þannig að ljósastaurinn átti greiða leið í gegnum þær allar niður í holuna.  Þá var að stafla öllu spýtnabrakinu undir og ofan á rúllurnar og troða blöðum og pappír með úrsmiðsnákvæmni í hverja rifu. Að lokum kom vörubíll með krana á framstuðaranum, hífði byrðingana úr nótabátunum upp á endann, lagði þá varlega að kestinum og myndaði eins konar kápu utan um hann. Þarna var risið mikið og fallegt mannvirki sem við félagarnir gengum til á gamlárskvöld ásamt fjölda manns og kveiktum í öllu saman. Þegar eldarnir læstu sig um köstinn og stigu hvæsandi til himins með svörtum reykjabólstrum og gneistabraki, brostum við stoltir og glaðir af þessu framtaki okkar. Nú mátti nýja árið koma okkar vegna.

Ingólfur Sverrisson

Sjá einnig: Þankar gamals Eyrarpúka ll

 Og líka:      Þankar gamals Eyrarpúka l


Nýjast