Þankar gamals Eyrarpúka

Loftmynd af Oddeyrinni.
Loftmynd af Oddeyrinni.

Eyrarpúki

Ein af mínum fyrstu endurminningum tengist umferðinni frá Akureyri til Reykjavíkur. Löngum stóð ég við rimlana á hliðinu við Brekkugötu 29 og horfði yfir götuna í austur til að fylgjast með bílunum sem þar fóru framhjá.

Á þeim tíma var þetta ekki einhver venjuleg gata í bænum heldur meginleiðin frá miðbæ Akureyrar suður til höfuðborgarsvæðisins. Þarna lá meðal annars leið rútubílanna um eftir að hafa tekið farþega sína og hafurtask þeirra við BSA-stöðina við Ráðhústorg. Síðan var ekið upp á Brekkugötuna í norðurátt; þar með hófst mikið ferðalag Suður. Þá bar vel í veiði fyrir lítinn snáða sem heyrði erfiðisstunur rútunnar strax neðan frá Oddeyrargötu og svo enn betur eftir því sem hún nálgaðist.

Þegar rútan fór svo fram hjá húsinu okkar var ég jafnan búinn að reka út báðar hendur milli hliðarrimlanna og veifaði ákaft til farþeganna. Stundum tóku þeir eftir þessum handasveiflum mínum og veifuðu glaðlega á móti mér til óblandinnar ánægju. Rúturnar fóru síðan áfram norður og yfir Glerárbrúna fyrir neðan virkjunina og þaðan Suður sem fyrir mér var eitthvað óendalega langt í burtu og allt sem þar var og allt sem þar gerðist var álíka fjarstæðukennt eins og líf á öðrum hnöttum.

Ég stóð áfram þögull við hliðið, horfði í austur þar sem löggustöðin ógurlega blasti við og Eiðsvöllurinn með bragga sína og forarvilpur sem síðar breyttist í skrúðgarð.

Vaðlaheiðin tók svo við og þarnæst himinhvolfið sjálft þar sem sagt var að Guð og góða fólkið byggi á efri hæðum og heitir Himnaríki. Vonandi allt í bærilegu standi á þeim bæ og því ekki ástæða til að hafa áhyggjur af fólkinu sem þar á lögheimili. Mér var meira í hug pabbi minn sem var löngum stundum enn neðar og norðar á Eyrinni að byggja okkur nýtt og stórt hús við götu sem kennd er við Rán konu Ægis og heitir Ránargata. Þarna vann hann þindarlaust í öllum sínum frístundum og lagði nótt við dag. Hann sagði okkur svo fréttir yfir kvöldmatnum hvernig gengi.

Einn daginn lauk hann við að handgrafa niður á fast, síðan voru undirstöður steyptar og svo áfram þar til eitt kvöldið að hann sagði að styttist í að hann færi að setja upp eldhúsinnréttingu. Eftir það væri skammt í málningarvinnuna og lokafrágang. Ég hlustaði opinmynntur og trúði vart að fljótt kæmi að því að við myndum flytja í höllina niður á Eyri.

Sannarlega var nýja húsið okkar höll miðað við litlu og notalegu kjallaraíbúðina í Brekkugötunni. Þar höfðum við búið góðu lífi og deilt í sátt og samlyndi klósetti og þvottahúsi með öðrum íbúum hússins. Engar erjur í númer 29 enda vorum við svo heppin að þar voru með okkur fjölskyldur Finnboga í Reykhúsinu og Dúdda einhenta sem allt var mikið sómafólk.

Svo rann stundin upp. Á hallandi sumri árið 1947 var allt okkar hafurtask sett upp á stóran vörubíl og okkur Árna bróður tyllt ofaná allt saman og ekið rakleitt niður í Ránargötu 16. Frá þeim degi varð ykkar einlægur Eyrarpúki og er enn!

Ingólfur Sverrisson


Athugasemdir

Nýjast