Barnaheill safna undirskriftum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Samkvæmt úttekt Sambands íslenskra sveitarfélaga getur kostnaður foreldra vegna námsgagna grunnskólabarna verið allt frá 400 krónum til rúmlega 22 þúsund króna,. Barnaheill telja þessa gjaldtöku fela í sér mismunun fyrir börn og fjölskyldur þeirra. RÚV sagði frá þessu.

Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn rétt á grunnmenntun án endurgjalds. Engu að síður er sveitarfélögum ekki skylt samkvæmt lögum að sjá nemendum fyrir gögnum til persónulegra nota, og eru þar nefnd sem dæmi ritföng og pappír. Barnaheill hvetja stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, til að setja skýrar reglur um að óheimilt sé að krefja foreldra um innkaup á gögnum eða greiðslu fyrir gögn sem nota á vegna skólagöngu barnanna. Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, segir í samtali við RÚV erfitt að sjá hvernig börn geti stundað námið án ritfanga. „Þetta hlýtur að vera það sem börn þurfa til þess að geta stundað sína menntun. Það sem að snýr að náminu sjálfu viljum við sjá að sé algjörlega hluti af því sem að er útvegað í skólum,“ segir Erna.

Safna undirskriftum 

Barnaheill hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun til að þrýsta á um að réttindi barna til gjaldfrjálsrar grunnmenntunar verði virt. Undirskriftalistinn verður afhentur nýjum menntamálaráðherra eftir kosningar í haust, en Erna bendir á að þingmenn stjórnarandstöðu hafi á dögunum lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um grunnskóla, þar sem heimild yfirvalda til að rukka fyrir námsgögn yrði felld úr gildi. Þingið hafi því tækifæri til að afgreiða málið fyrir kosningar.

Tengdar fréttir:

Til skoðunar að leggja af kostaðarþátttöku foreldra

 

Nýjast