Hermann Jón Tómasson bæjarfulltrúi S-lista óskaði bókað á fundi bæjarráðs:
"Ég er andvígur því að Akureyrarbær taki þátt í að auka stofnfé í Sparisjóði Höfðhverfinga. Bæjaryfirvöld hafa hingað til einungis lagt fjármuni til uppbyggingar nýrrar atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu, starfsemi sem ekki er í samkeppni við þau fyrirtæki sem fyrir eru. Nú er vikið frá þeirri stefnu og fjármunir bæjarbúa notaðir til að efla nýtt fjármálafyrirtæki sem starfa mun í beinni samkeppni við þau sem fyrir eru. Það er grundvallarregla í opinberri stjórnsýslu að gæta jafnræðis þegar ákvarðanir eru teknar. Það tel ég að sé ekki gert með þessari ákvörðun."
Njáll Trausti Friðbertsson D-lista óskaði bókað:
"Stefna Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er skýr varðandi það að við teljum almennt ekki rétt að Akureyrarkaupstaður fjárfesti í samkeppnisrekstri. Hins vegar tel ég að í ljósi núverandi aðstæðna í samfélaginu geti stofnun sparisjóðs með aðkomu Akureyrarkaupstaðar styrkt samfélagið. Því vil ég leggja áherslu á að aðkoma Akureyrarkaupstaðar sé einungis hugsuð til skamms tíma og bæjarbúum boðið að fjárfesta í stofnfé nýs sparisjóðs hið allra fyrsta."
Petra Ósk Sigurðardóttir B-lista óskaði bókað:
"Ég tel stofnun sparisjóðs góða hugmynd en hef efasemdir um að bærinn bindi fjármuni í þetta verkefni á sama tíma og grunnþjónusta þarf að sæta niðurskurði. Því sit ég hjá við atkvæðagreiðslu þessa."