Hjartað hefur lýst upp skammdegið í vetur og yljað íbúum svæðisins og ferðamönnum, innlendum sem erlendum, um hjartarætur síðustu mánuði. Ömmur, afar, mömmur, pabbar, frænkur, frændur, systur og bræður gæddu sér á 800 lummum ásamt 60 lítrum af kaffi og kakói. Börn og fullorðnir skemmtu sér í pokahlaupi, búleikjum og gerð sjálfsmynda. Ófáar ferðir voru farnar með hestvagninum og bros skein af andliti hvers barns eftir stuttan túr á hestbaki auk þess sem sýningar safnsins heilluðu margan gestinn. Fjölmörg börn nýttu sér kosningarétt sinn og kusu um nafn sumarsýningar safnsins sem fjallar um líf barna.