Viljayfirlýsing um aukið samstarf á milli Akureyrarbæjar og Gimli í Kanada hefur verið undirrituð. Með yfirlýsingunni er styrkari stoðum rennt undir samstarf á sviði menningarmála, menntunar, sjálfbærrar ferðaþjónustu og nýsköpunar.
Undirritunin markar tvenn tímamót í sögu Íslendingabyggðar í Kanada; 150 ár eru frá því fyrstu landnemarnir settust að á Nýja Íslandi í Gimli og einnig eru 50 ár frá því að Akureyri og Gimli tóku upp vinabæjarsamband.
Sameiginleg saga
„Þessi samningur er grundvallaður á sameiginlegri sögu okkar og vísar einnig til vináttusambands komandi kynslóða,“ sagði Kevin Chudd, bæjarstjóri Gimli í frétt á vefsíðu Akureyrarbæjar. „Við erum stolt af vinabæjarsambandi okkar við Akureyri og staðfestum hér með áframhaldandi og aukið samstarf á sviði samfélagsmála, menningar og nýsköpunar.“
Mikilvægi íslenskrar arfleifðar
„Það er heiður fyrir okkur á Akureyri að geta endurnýjað vináttusambandið við Gimli,“ sagði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Þessi samningur endurspeglar gagnkvæma virðingu og mikilvægi íslenskrar arfleifðar í Kanada. Við hlökkum til nýrra tækifæra í menningarskiptum og samstarfi á sviði sveitarstjórnarmála.“
Viljayfirlýsingin kveður á um samstarf á fjórum meginsviðum:
· Menningarleg samskipti og varðveisla arfleifðar — samsýningar, varðveisla sögulegrar arfleifðar og tækifæri fyrir listamenn til að vinna í vinabænum.
· Menntamál — nemenda- og kennaraskipti, fjarkennsla og samvinna við gerð námskrár.
· Sjálfbær ferðaþjónusta og efnahagsþróun — ábyrg ferðaþjónusta og ný tækifæri fyrir smærri fyrirtæki.
· Nýsköpun í sveitarstjórnarmálum og stafrænt samstarf — opin gagnamiðlun, nútímavæðing þjónustu og stafrænt aðgengi.