Ráðherraviskí fyrir Blöndal en ruddi fyrir pöpulinn

Þorkell Björnsson – tilvonandi ráðherra og smekkmaður á viskí. Mynd: Heiðar Kristjáns.
Þorkell Björnsson – tilvonandi ráðherra og smekkmaður á viskí. Mynd: Heiðar Kristjáns.

Þegar lokið var við að leggja bundið slitlag á Húsavíkurflugvöll í Aðaldal, var því að sjálfsögðu fagnað með viðhöfn og þáverandi ráðherra samgöngumála, Halldór Blöndal, bauð til reisugillis í Flugstöðinni. Auk ráðherra, samgönguforkólfa, héraðshöfðingja og annarra tiginna gesta, voru á staðnum þeir öflugu verka- og iðnaðarmenn sem störfuðu við framkvæmdina og ennfremur tveir blaðamenn frá Húsavík og var annar  þeirra Þorkell Björnsson.

Vel var veitt og höfðinglega í hófinu eins og Halldórs var von og vísa Blöndals og þokkafullar þjónustumeyjar voru á þönum um Flugstöðina með glasabakka bjóðandi drykkjarföng. Ein slík kom aðvífandi að Þorkatli blaðamanni, sem sjaldan hefur fljótandi flotinu neitað. Oggi vildi vita hvað væri í glösunum á bakkanum og það var skilmerkilega útskýrt, sem sé bjór, pilsner, kók, appelsín og viskí. “Ætli maður neyðist þá ekki til að fá sér viskí,” sagði Þorkell og seildist eftir viskíglasi á bakkanum.

“Nei, nei, þú mátt ekki taka þetta glas, þú verður að taka glasið við hliðina,” sagði þá felmtruð servitrísan. “Nú, hvað, ég sé nú engan mun á þessum glösum,” kvað þá undrandi Ogginn.  “Ja sko, glasið sem þú ætlaðir að taka er með 12 ára gömlu viskí og það er bara fyrir ráðherrann. Hitt er með ódýrara viskí fyrir alla hina gestina.” Sagði fraukan, dulítið vandræðaleg.

“Þá er þetta allt í lagi, ég er nefnilega tilvonandi ráðherra og tek því hér með forskot á sæluna.” Sagði Þorkell og hrifsaði til sín hið 12 ára gamla ráðherraviskí og sullaði í sig af stakri velþóknun. JS

 


Nýjast