Hringur listmálari í sambýli við helstu glæpamenn landsins?

Hringur Jóhannesson var ekki með lögheimili í steininum á Skólavörðustíg! Mynd: JS
Hringur Jóhannesson var ekki með lögheimili í steininum á Skólavörðustíg! Mynd: JS

Hringur heitinn Jóhannesson frá Haga, listmálari Þingeyinga og þjóðarinnar, var á sínum tíma áskrifandi að þingeyska vikuritinu Víkurblaðinu. Ekki virtust útgefendur blaðsins sérstaklega kunna að meta áskrift þessa ástsæla snillings heldur þvert á móti. Og gekk svo langt að þeim tókst nánast að koma Hring í fangelsi fyrir aungvar sakir. Þetta upgötvaðist þegar ritstjóra barst bréf frá listamanninum þar sem hann lagði áherslu á að hann væri búsettur að Skólavörðustíg 19 í Reykjavík. En bréfið var svohljóðandi:

“Sendi þér hjálögð tvo erindi rímuð vegna vanskila á Víkurblaðinu þrjár síðustu vikurnar. Blöðin bárust mér hinsvegar í dag, endursend frá Skólavörðustíg 9, en það virðulega hús hefur eins og þú veist hýst marga ágætustu glæpamenn þjóðar okkar undanfarna áratugi. Vona að vísunar skýri málið að öðru leyti!“

 

Þótt efalaust eitthvað ég drekki

og umgangist lögin á fríu,

utanáskriftin er ekki

það ágæta steinhús á 9.

 

Léttu nú andlegri áþján

af mér og sendu næst ritið

beint upp í boxið á 19

svo brenglist ei þingeyska vitið.”

 

Vart þarf að taka fram að steinhúsið að Skólavörðurstíg 9, var gamla góða fangelsið! JS

 


Nýjast