Helgi Pálma bar ekki ábyrgð á Kröflueldum!

Kempan Helgi Pálmason. Mynd: JS
Kempan Helgi Pálmason. Mynd: JS

Þegar unnið var við byggingu Kröfluvirkjunar á sínum tíma var fátt afþreyingar þar efra. Unnið var 11 daga í beit frá kl. 7.30 að morgni til kl. 21.30 að kvöldi, með kaffi- og matarhléum, þannig að lítill tími gafst til annars en að vinna og sofa. Þó bar það við að menn reyndu að finna sér eitthvað til dundurs að afloknum löngum vinnudegi.

Ekki var hægt að ná sjónvarpsútsendingu á staðnum en menn gátu horft á vídeó. Eitt sinn tróðst hópur ungra Húsvíkinga inn í einn svefnskálann og tilefnið var sýning á svokölluðum bláum spólum. Sátu piltar um stund og horfðu opinmynntir á bólfarir ógurlegar. En þar kom að einn félaganna, Helgi nokkur Pálmason, þéttholda þrekmenni, stendur kengboginn á fætur og segir: „Strákar, stoppiði spóluna, ég þarf að skreppa á klósettið.“

Viðstaddir glottu við fót og þóttust vita hvaða hvatir drægju Helga til salernis í þetta sinn og efuðust mjög um miguþörf hans.

Það leið ekki nema svona hálf mínúta frá því Helgi skrapp á klósett, þar til skálinn tók að nötra og skjálfa með hávaða og látum og braki og brestum  í röftum. Og skipti engum togum að Pálmason kom flogandi út af klósettinu, enn kengboginn, en nú með buxurnar á hælunum og hrópaði: „Strákar, strákar, þetta var ekki ég, þetta var sko alls ekki ég!“

Og reyndist rétt, því hér voru í gangi fyrstu ummerki um Kröfluelda sem síðar urðu. Sem sagt jarðskjálfti, en ekki gríðarlega kraftmikil könnun Helga Pálmasonar á hollustu eigin handar. JS


Nýjast