Guðsþakkarvert að klerkur breytti ekki lager Vínbúðarinnar í vatn

Börkur Emilsson veitingamaður og fyrrum Vínbúðarstjóri á Húsavík. Mynd: JS
Börkur Emilsson veitingamaður og fyrrum Vínbúðarstjóri á Húsavík. Mynd: JS

Fastakúnni á leið inn í Vínbúðina á Húsavík mætti  sóknarklerki í durunum, og ályktaði sem svo að nú hefði séra Sighvatur ugglaust verið að ná í messuvínið fyrir næstu altarisgöngu.

En þessi fundur við prest vakti um leið nokkurn ugg í brjósti bjórsvelgs, sem snaraðist inn með hjartað í buxunum og spurði Börk Emilsson Vínbúðarstjóra, hvort klerkur hefði nokkuð verið að dedúa við kraftaverk þar inni. „Var helvítið nokkuð  að breyta  víni í vatn?“ Spurði svelgur milli vonar og ótta.

Nei, kvað Bötti. “Prestur hinsvegar blessaði allan lagerinn, þannig að nú seljum við eingöngu guðaveigar hér inni.” JS


Athugasemdir

Nýjast