Hvernig draga má úr veikindafjarveru á vinnustöðum

Elsa Heimisdóttir, sérfræðingur í mannauðsstjórnun hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.      Mynd hei…
Elsa Heimisdóttir, sérfræðingur í mannauðsstjórnun hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni. Mynd heilsaogsal.is

Veikindafjarvera hefur áhrif á rekstur, starfsanda og líðan starfsfólks. Þó að veikindi séu eðlilegur hluti af lífinu, sýna bæði íslenskar og alþjóðlegar rannsóknir að stjórnendur vinnustaða geta haft veruleg áhrif á það hvort fjarvera verði stutt og tímabundin eða þróist yfir í langvarandi veikindaleyfi. Með markvissum aðgerðum er hægt að draga úr veikindum, bæta líðan og styrkja vinnustaðamenningu.

Hér eru nokkur atriði sem rannsóknir benda til að skipti máli.

Skýr ferli og örugg samskipti

Óvissa eykur streitu, bæði hjá starfsfólki og stjórnendum. Þegar ferli um veikindamál eru skýr, einföld og öllum kunn, verður málsmeðferð faglegri og fyrirsjáanlegri. Regluleg og styðjandi samskipti stjórnenda við starfsfólk eru ein áhrifamesta forvörnin gegn langvinnri fjarveru.

Skýr ferli hjálpa stjórnendum að bregðast við af öryggi og tryggja að starfsfólk upplifi virðingu og sanngirni.

Snemmtæk íhlutun og aðlögun vinnu

Rannsóknir sýna að snemmtæk íhlutun, innan fyrstu daga veikinda, getur skipt sköpum. Samtal, tímabundin aðlögun vinnu eða sveigjanleiki getur komið í veg fyrir að fjarvera lengist eða festist í sessi.

Aðlögun getur verið einföld, s.s. léttari verkefni, styttri vinnutími eða skýr forgangsröðun. Slíkar lausnir styðja starfsfólk til að halda tengslum við vinnuna og auðvelda endurkomu.

Lausn samskiptavanda og stuðningur við stjórnendur

Óleystur ágreiningur og samskiptaörðugleikar er algeng orsök langvinnrar veikindafjarveru. Þegar samskipti fara úr skorðum eykst líkamleg og andleg streita, sem getur leitt til fjarveru.

Hlutlaus greining, miðlun og markviss þjálfun stjórnenda í erfiðum samtölum getur flýtt lausnum og komið í veg fyrir að vandinn þróist yfir í veikindi. Stuðningur við stjórnendur er þar lykilatriði.

Skýr hlutverk og raunhæft vinnuálag

Óljósar væntingar, ójafnt álag og stöðugt slökkvistarf eru stórir áhættuþættir fyrir kulnun og veikindafjarveru. Endurskoðun starfslýsinga, verkaskiptingar og forgangsröðunar getur haft veruleg áhrif á líðan starfsfólks.

Þegar fólk veit nákvæmlega hvað er ætlast til af því og hefur raunhæf skilyrði til að sinna starfinu þá minnkar streita og fjarvera.

Heilsueflandi og öruggt vinnuumhverfi

Heilsuefling skilar mestum árangri þegar hún er samþætt vinnudeginum. Dæmi eru fræðsla um streitu og svefn, góð vinnuaðstaða, regluleg hvíld og uppfært áhættumat.

Öruggt vinnuumhverfi dregur úr slysum, stoðkerfisvandamálum og langvinnri vanlíðan. Heildstæð nálgun á heilsu og öryggi styður starfsfólk til að viðhalda vinnugetu.

Hvernig ráðgjöf getur stutt fyrirtæki

Fagleg ráðgjöf getur hjálpað stjórnendum vinnustaða að:

- greina raunverulegar orsakir fjarveru

- setja upp skýr ferli og verkfæri fyrir stjórnendur

- leysa samskiptavanda áður en hann þróast yfir í veikindi

- innleiða snemmtæka íhlutun og aðlögun vinnu

- byggja upp heilsueflandi og sanngjarna vinnustaðamenningu

 

Með markvissri nálgun er hægt að draga úr veikindafjarveru, bæta líðan og styrkja reksturinn.

Höfundur: Elsa Heimisdóttir, sérfræðingur í mannauðsstjórnun hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.

 

Nýjast