Ákveðið hefur verið að opna 7 daga rými á ný á Kristnesspítala frá og með 7.-8. febrúar. Opnuð verður blönduð deild þ.e. dagdeild, 5 daga- og 7 dagadeild en starfsemin verður skert til að byrja með á meðan unnið er að því að manna deildina. Á deildinni verða 18 rými í fyrstu og óljóst í hve langan tíma starfsemin verður skert.
Fyrir áramót sendi SAk út ákall til samfélagsins með það í huga að reyna að manna þjónustu endurhæfingadeildar svo halda megi úti 7 daga deild. Ákallið hefur skilað árangri að hluta, þó vantar enn hjúkrunarfræðinga til starfa. „Við sendum því á ný út ákall eftir hjúkrunarfræðingum í endurhæfingar- og öldrunarlækningaþjónustu SAk,“ segir í tilkynningu frá sjúkrahúsinu.
Horfum á stóru myndina
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar ræddi stöðu Kristnesspítala og framtíð starfseminnar þar nýverið. Hefur sveitarstjórn óskað eftir fundi með fulltrúum SAk um framtíðarsýn varðandi starfsemi Kristnesspítala og þær fasteignir sem henni tilheyra á svæðinu.
Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit segir að vonast sé til að sveitarstjórnarmenn geti hitti forstjóra SAk á næstu vikum. Ljóst sé að starfsemin sé brothætt og mönnum eins og hún er nú að þolmörkum komin. „Við erum að horfa á stóru myndina, bæði hvað varðar starfsemina á Spítalanum og einnig þær fasteignir sem ríkið á hér á svæðinu, en ástand þeirra er ekki að batna. Okkur þykir mikilvægt að á því verði unnar bætur,“ segir hann.