Zontakonur styrkja Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi

Styrkurinn afhentur,  f.v. Sigríður Sía Jónsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir og Sigríður Halldórsdóttir…
Styrkurinn afhentur, f.v. Sigríður Sía Jónsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir og Sigríður Halldórsdóttir.

Á fundi í Zontaklúbbnum Þórunni hyrnu fyrir skömmu var samþykkt að veita Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri, 200 þúsund króna styrk. Í samþykktinni er ráðgert að hluti styrksins, eða 50 þúsund krónur, skuli nýttur til að endurhæfa heimasíðu miðstöðvarinnar en hinn hlutinn er eyrnamerktur málþingi á vegum miðstöðvarinnar og Þórunnar hyrnu. Styrkurinn var afhentur í húsnæði Akureyrarakademíunnar í gær. Fram kom í máli Sigríðar Síu Jónsdóttur formanns Þórunnar hyrnu, að helsta fjáröflun klúbbsins væri árleg laufabrauðssala, enda væru þær þekktar fyrir sitt laufabrauð. Sigrún Sigurðardóttir er forstöðukona Rannsóknarmiðstöðvar gegn ofbeldi en Sigríður Halldórsdóttir prófessor við heilbrigðisvísindadeild HA er formaður stjórnar. Einnig er Ágúst Þór Árnason deildarformaður lagadeildar HA í stjórn miðstöðvarinnar.

Sigríður sagði erfitt að koma hlutum í gegn nema með peningum. Þessi styrkur væri því mikill fengur og stór upphæð fyrir miðstöðina. Hún sagði að miðstöðin vildi vinna að því að auka meðvitund um ofbeldi og helst af öllu útrýma ofbeldi.

Hin alþjóðlega Zontahreyfing vinnur að því að bæta stöðu kvenna um allan heim og á síðustu áratugum hefur sérstök áhersla verið lögð á verkefni gegn hvers kyns ofbeldi á konum og stúlkubörnum. Klúbbfélagar í Þórunni hyrnu fagna því heilshugar tilkomu rannsóknarmiðstöðvar á þessu sviði og vænta mikils af starfsemi hennar.

Nýjast