Yfirlýsing frá Trans Atlantic

Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.
Ferðaskrifstofan Trans Atlantic hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fjölmiðlaumfjöllunar um að flugvél í beinu flugi frá Riga til Akureyrar um miðjan október ákvað að lenda á Keflavíkurflugvelli.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Alvitur hengir bakara fyrir smið
Það hefur vart farið framhjá flestum íbúum á Akureyri og í nærsveitum sá fréttaflutningur sem orðið hefur til í kjölfar þess að leiguflug á vegum ferðaskrifstofunnar Trans Atlantic sem átti að lenda að kvöldi þriðjudagsins 13 Október var beint til Keflavíkur og hætt við lendingu á Akureyrarflugvelli eins og til stóð. Hafa fyrirsagnir auðvitað hjálpað þarna mikið til enda grípandi líkt og í góðri spennusögu: „ Flugvél sem átti að lenda á Akureyri var látin lenda í Keflavík þrátt fyrir rjómablíðu fyrir norðan“ (DV 23/10/2015-16:00), „Aðstæður voru kjörnar fyrir lendingu á Akureyri“ (DV 23/10/2015-19:30), „Sögðu slæmt verður nyrðra en athuguðu það ekki“ (VISIR 26/10/2015-17:58).

En um hvað er raunverulega deilt í þessu dæmi ?  Það er sú staðreynd að flugstjóri ákvað að sleppa lendingu á Akureyri vegna þess að veður og aðrir samverkandi þættir hefðu haft áhrif á öryggi farþega við lendingu og með öryggi farþega að leiðarljósi hafi hann tekið þessa ákvörðun (Captain of the aircraft made decision to avoid landing in Akureyri airport because of adverse meterological conditions and specific flight parameters) eins og ítrékað er í yfirlýsingu flugfélagsins frá 19 Október sl. Hefur ferðaskrifstofan sent umrædda yfirlýsingu til farþega sem og fjölmiðla sem þess hafa óskað. Er í yfirlýsingu flugfélagsins vísað til reglugerðar EC 261/2004 þar sem umrædd heimild flugstjóra er viðurkennd, auk þess sem Hr. Guðni Sigurðsson hjá ISAVIA í viðtali við Vikudag segir: „…Hann (flugstjórinn, innsk.EOAH) hefur einhverja hluta vegna metið það svo að lendingarskilyrði væru slæm á Akureyri“ enda bendir hann á að „..flugstjórinn hafi alltaf úrslitavaldið“ og undir sama tekur flugturninn á Akureyri í framhaldi af fyrirspurn ferðaskrifstofunnar til hans daginn eftir sem svarað er 14 Október sl. en í svari þaðan segir að hvorki flugvöllurinn (airport operator) eða flugumferðarstjóri (air traffic controller) á vakt hafi heimild eða vald til að ákveða fyrir hönd flugmanns / flugstjóra hvort veðuraðstæður séu nægilega góðar eða ekki. Endanleg ákvörðun liggi ævinlega hjá flugstjóranum.

Í öllum þeim æsingi sem hefur einkennt umræðuna í framhaldinu hefur örlað á dómstóli götunnar og fram komið ásakanir, dylgjur og rakalausar staðhæfingar frá Alvitrum þar sem fólk er varað við að skipta við slíka hrappa sem við eigum að vera (Sigurður Hjólason/Blöndusósi/DV),  við sleppt lendingu á Akureyri af því að greinarhöfundur sem var sjálfur farþegi í umræddu flugi og búsettur syðra ákvað að láta bara lenda í Keflavík svona líkt og vélin hafi aldrei átt að fara til Keflavíkur yfirhöfuð (Friggi Jó/Reykjavík/DV) og undir sömu fullyrðingu tekur farþegi úr fluginu sem ætlar ferðaskrifstofunni það að hafa verið búin að ákveða það sjálf löngu áður að sleppa Akureyri (Magnús Jónsson/Vélvirki/DV).

En hver var hin raunverulega atburðarrás þennan þriðjudag sem snýr að ferðaskrifstofunni ?  Eins og áður er nefnt var ég í umræddum farþegahópi í Riga enda í þessari ferð sem venjulegur farþegi með minni fjölskyldu. Flugfélagið hringdi í mig úti rétt eftir hádegið (á staðartíma í Riga) til að láta mig vita að veðuraðstæður á Akureyri væru 50/50 upp á skilyrði til lendingar en tjáði mér jafnframt að aðeins yrði lendingu á Akureyri sleppt ef aðstæður myndu ekki lagast en ákvörðun um slíkt yrði aldrei tekin fyrr en rétt fyrir flug eða í fluginu sjálfu. Við þessar fréttir frá flugfélaginu var haft samband við stöðvarstjóra á Akureyrarflugvelli sem staðfesti ofangreint mat á skilyrðum en hann bætti því þó við að allar líkur væru til þess að skv. spá ætti veður að fara batnandi. Um klukkan 16:36 (staðartími í Riga) koma upplýsingar frá Akureyrarvelli um að aðstæður hafi batnað verulega og því fylgir símtal frá mér til flugfélagsins bæði strax þá og svo aftur um klukkan 17:36 þar sem þess er óskað að flugfélagið hafi samband við flugturninn á Akureyrarvelli til að fá nýjustu upplýsingar um aðstæður nyrðra. Er því lofað af flugfélaginu og ítrékað við mig að endanleg ákvörðun verði tekin síðar. Rétt fyrir flugtak eða um 20:00, um borð í flugvélinni sjálfri, er mér tjáð að ennþá sé verið að meta aðstæður og að flugstjóri muni láta mig vita þegar eitthvað er liðið á flugið til Íslands. Klukkustund fyrir lendingu kemur svo áhafnarmeðlimur að máli við mig í vélinni og tjáir mér að vegna aðstæðna á Akureyri verði flogið til Keflavíkur sem hann jafnframt tilkynnir farþegum í kallkerfi vélarinnar. Ég í beinu framhaldi af því fæ að ávarpa farþega þar sem ég greini frá þessari ákvörðun flugstjóra og kem á framfæri útskýringum hans sem og þeim ráðstöfunum sem flugfélagið hafi gert til þess að koma farþegum áfram norður frá Keflavík.

Það er því alrangt og helber ósannindi að halda því fram að ferðaskrifstofan eða ég á hennar vegum hafi logið að farþegum, vitað af ákvörðun þeirra áður eða haldið uppi röngum málflutningi bæði fyrir flug, á meðan því stóð eða eftir heimkomu. Strax daginn eftir heimkomu fór ferðaskrifstofan í það að fá umsagnir og mat frá flugturninum á Akureyri, stöðvarstjóra á Akureyrarflugvelli og öðrum. Í framhaldinu af fenginni vitneskju kröfðumst við þess af flugfélaginu að koma fram með skriflega skýringu á þeirri ákvörðun sem flugstjóri tók og olli þessum óþægindum, ekki bara gagnvart farþegum heldur ferðaskrifstofunni líka. Var skýringum flugfélagsins svo áfram komið til þeirra sem biðu skýringa á þessu. Er Alvitur skv. þessu að reyna að hengja bakara fyrir smið ?

Óumdeilt er að þessi breyting á flugi var ekki af hinu góða og að áhrif hennar komu illa við alla sem að málinu koma. En til að gæta allrar sanngirni í málinu þá vil ég benda á það að ferðaskrifstofan Trans Atlantic hefur í rúman áratug verið eina ferðaskrifstofan utan Reykjavíkur sem hefur haldið árlega uppi leiguflugi frá Akureyri og eftir aðstæðum einnig frá Egilsstöðum til áfangastaða erlendis og má lauslega ætla að farþegafjöldi hennar á þessum tíma liggi á bilinu 30 – 35.000 manns.  Hefur þá verið flogið til Eistlands, Lettlands, Litháen, Portugals, Króatíu, Ítalíu, Spánar og Danmerkur. Inn í þessum farþegatölum er allur flugrekstur í áætlunarflugi okkar millum Egilsstaða og Evrópu í vikulegu flugi sem við settum upp og þjónustuðum í ein 3 ár, frá 2005 - 2008.  Undanfarin 6 - 7 ár höfum við starfað með Smartlynx flugfélaginu sem sá um umrætt flug frá Riga og fjöldi farþega í flugi með þeim sjálfsagt á þessum tíma milli 3 – 4.000 manns. Á þessum tíma öllum hafa einungis 2 flug lent í breytingum sem varla telst mikið þegar áratugur af flugi er skoðaður. Í yfirstjórn þessa fyrrum dótturfélags Icelandair eru tveir íslendingar og þar af annar frá Akureyri sem einmitt er yfirmaður flugrekstrarsviðs þess og ætti því að þekkja til aðstæðna á Akureyri.

Í frekari vinnslu blaðamanna á þessari atburðarrás allri hefur komið fram að skv. upplýsingum frá ISAVIA hafi flugstjóri/flugfélagið töluvert fyrir brottför frá Riga þá þegar tekið ákvörðun að lenda ekki á Akureyri en skv. þeim upplýsingum sem við höfum nú fengið frá Akureyrarflugvelli var lending þar afbókuð 2 klst fyrir brottför frá Riga en ekki 8 klst eins og fréttaflutningu á Visir.is/Fréttablaðinu hefur greint frá.

Við teljum að það sé ljóst núorðið að réttum upplýsingum hafi ekki verið komið á framfæri við ferðaskrifstofuna, sem síðan bar það áfram til farþega, jafnóðum og breytingar áttu sér stað hjá flugfélaginu. Hefur ferðaskrifstofan sett athugun af stað hjá sér vegna málsins og mun síðan í samráði við lögmann sinn athuga hvort ástæða sé til kröfugerðar á hendur flugfélaginu og þá með það að leiðarljósi að leita eftir skaðabótum til handa farþegum hennar í téðu flugi. Flugfélagið hefur þó áður hafnað óskum okkar um bætur til farþega sem gert var strax deginum eftir heimkomu.

Við að lokum ítrekum það að ferðaskrifstofan harmar öll þau óþægindi sem breyting á flugáætlun hafði á farþega og óskar þeim velfarnaðar með miklum og góðum þökkum fyrir það traust sem þeir hafa sýnt okkur, líkt og allur sá mikli fjöldi í gegnum árin sem hefur kosið að ferðast með okkur. Þá þakka ég persónulega öllu því ágæta fólki sem ég náði að kynnast eilítið og samfylgd þeirra í þeirri fallegu og vinalegu borg sem Riga er.
 

Egill Örn Arnarson Hansen
F.h Trans Atlantic ferðaskrifstofu á Akureyri

Nýjast