23. febrúar, 2007 - 18:04
Kæra á tvo trillukarla á Akureyri til lögreglu fyrir meintan fiskstuld úr eldiskvíum Brims norðan við Krossanes. Mennirnir voru stöðvaðir af lögreglu í smábátahöfninni í Sandgerðisbót sl. sunnudag, en áður hafði sést til þeirra við kvíarnar. Þeir voru ekki með fisk um borð þegar lögreglan hafði afskipti af þeim. Frá málinu var fyrst sagt í vikunni á Vikudagur.is. Annar trillukarlanna, sem ekki vildi láta nafn síns getið, sagði í samtali við Vikudag að það væru helber ósannandi að þeir hafi verið að stela fiski úr kvíum fyrirtækisins. „Það eina sem við erum sekir um er að hafa verið að veiða of nærri kvíunum. Það hafa margir smábátasjómenn stundað veiðar nærri kvíunum en það dettur ekki nokkrum manni í hug að stela fiski úr þeim," sagði trillukarlinn.
Sævar Þór Ásgeirsson, sem hefur umsjón með eldiskerjunum fyrir hönd Brims, segir allt eins líklegt að mennirnir hafi orðið varir við að fylgst var með þeim og hent fiskinum fyrir borð. Trillukarlinn sagði að þetta væru alveg fráleitar ásakanir og að sannleikurinn væri sagna bestur. Nánar er fjallað um málið í Vikudegi í gær.