Vorum að óbreyttu að breyta bænum í leikvöll andskotans

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri segir það hafa verið erfiðustu ákvörðun sem hún hafi þurft að taka sem bæjarstjóri þegar ákveðið var í sumar að hefta aðgengi 18-23 ára að tjaldsvæði bæjarins um verslunarmannahelgina þegar hátíðin Ein með öllu var í undirbúningi. Þetta kom fram í máli hennar á ráðstefnu um bæjar- og héraðshátíðir á Akranesi í síðustu viku.

Fjallað er um ráðstefnuna í héraðsfréttablaðinu Skessuhorni og þar segir Sigrún Björk ennfremur að á Akureyri séu haldnar ýmsar hátíðir yfir árið. „Flestar fara þær vel fram en þó hafa skorið sig úr hátíðirnar Bíladagar og Ein með öllu. Þessar hátíðir hafa farið úr böndunum með afleiðingum sem allir þekkja. Fréttir af þessum hátíðum hafa verið neikvæðar og líklega skaðað bæjarfélagið Akureyri meira en sem nemur bættri ímynd. Þegar verst lét á hátíðinni Einni með öllu var í raun um að ræða neyðarástand, fólk var ekki óhult, skemmdarverk voru unnin og kostnaður við hreinsun, viðgerðir og aðra fylgifiska fór fram úr öllu hófi. Við vorum að óbreyttu að breyta bænum í leikvöll andskotans," sagði Sigrún Björk.

Ennfremur kom fram í máli bæjarstjóra að sú ákvörðun að banna ungu fólki að tjalda um verslunarmannahelgina hafi vakið litla hrifningu kaupmanna og annarra sem höfðu hagsmuna að gæta. Ákvörðunin hafi verið erfið en engu að síður haft mikil áhrif. Sigrún Björk upplýsti á ráðstefnunni að Akureyringum verði boðið á borgarafund í nóvember þar sem ræða á opinskátt framkvæmd bæjarhátíðar um næstu verslunarmannahelgi. „Útihátíðir hjá okkur verða með öðru sniði framvegis. Við munum stórauka forvarnir, við þurfum samhent átak til að breyta hátíðunum til hins betra en fyrst og fremst þurfa bæjarbúar að svara því hvert fólk vilji stefna. Menn verða að átta sig á því að að frelsi sem ekki fylgir ábyrgð umhverfist í lausung."

Nýjast