Hallgrímur Mar Steingrimsson og Julia Bonet Carreras best hjá KA.

Julia Bonet Carreras  og Hallgrímur Mar Steingrímsson íþróttafólk KA 2025   Myndir  KA/Skapti Hallgr…
Julia Bonet Carreras og Hallgrímur Mar Steingrímsson íþróttafólk KA 2025 Myndir KA/Skapti Hallgrimsson

Knattspyrnumaðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson og blakkonan Julia Bonet Carreras voru í gær kjörin íþróttafólk KA en úrslitin voru kunngjörð á 98 ára afmælisfögnuði KA sem fram fór í gær.

Þetta er annað árið í röð sem Julia er kjörin íþróttakona KA en hún hefur átt stórkostlegar frammistöður í blakliði KA sem er Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari. Hallgrímur Mar átti frábært sumar þar sem hann varð markahæsti leikmaður KA og var valinn í lið ársins í Bestudeildinni. Er þetta í annað sinn sem Grímsi er kjörinn íþróttakarl KA en hann var einnig kjörinn árið 2023.

Alex Cambray Orrason úr lyftingadeild KA varð annar í kjörinu til íþróttakarls KA og þá voru þeir Bjarni Ófeigur Valdimarsson (handknattleiksdeild) og Zdravko Kamenov (blakdeild) jafnir í 3. sæti.

Lyftingakonan Drífa Ríkarðsdóttir varð önnur í kjörinu til íþróttakonu KA og handknattleikskonan Anna Þyrí Halldórsdóttir varð þriðja.

Böggubikarinn

Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir úr blakdeild KA og Þórir Hrafn Ellertsson úr knattspyrnudeild KA hlutu Böggubikarinn á 98 ára afmælisfögnuði KA

Þórir Hrafn Ellertsson og Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir 

Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi. Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011.

Þjálfari ársins og lið ársins

Meistaraflokkur kvenna í blaki er íþróttalið KA árið 2025 en stelpurnar urðu Íslandsmeistarar, Bikarmeistarar og Deildarmeistarar á árinu. Þá var Miguel Mateo Castrillo þjálfari kvenna- og karlaliðs KA í blaki kjörinn þjálfari ársins hjá félaginu.

Er þetta í þriðja skiptið sem Mateo er kjörinn þjálfari ársins en þetta er í sjötta skiptið sem þjálfari ársins hjá KA er kjörinn. Þá er þetta í annað skiptið sem meistaraflokkur kvenna í blaki er lið ársins en rétt eins og með kjör þjálfara ársins er þetta í sjötta skiptið sem lið ársins er valið hjá KA.

Kvennalið KA í blakinu er handhafi allra stóru titlanna í blakinu þetta árið og vann einnig keppni meistara meistaranna í upphafi tímabilsins. Í Unbrokendeildinni tapaði KA einungis tveimur leikjum af átján og tryggði sér deildarmeistaratitilinn eftir harða baráttu við Völsung. Í Kjörísbikarnum spilaði KA til úrslita við HK sem þær sigruðu eftir æsispennandi 5 hrinu leik þar sem Paula del Olmo var kosin besti leikmaðurinn. Í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn spilaði KA við Völsung og vann KA liðið það einvígi örugglega 3-0.

Mateo þjálfari ársins og blakstelpurnar lið ársins hjá KA

 

ka.is sagði frá 

Nýjast