Vorfundur Samorku

Alls munu hátt á fjórða hundrað manns taka þátt í Vorfundi Samorku sem haldinn verður í Hofi á Akureyri í dag og á morgun.

Iðnaðarráðherra ávarpar fundinn og síðan verða flutt rúmlega 50 erindi, m.a. um raflínur og strengi, öryggismál, vatnsvernd, virkjanaframkvæmdir, einföldun regluverks, hreinsun fráveituvatns og margt fleira.

Samhliða fundinum munu 22 fyrirtæki kynna vörur sínar og þjónustu; verkfræðistofur, innlend iðnfyrirtæki, innflutningsaðilar, hugbúnaðarfyrirtæki, innheimtuþjónustur og fleiri.

Vorfundur Samorku er haldinn á þriggja ára fresti og er nú haldinn í sjöunda sinn. Fundirnir hafa ávallt verið haldnir á Akureyri. Fjallað er um starfsumhverfi orku- og veitufyrirtækja en jafnframt lögð áhersla á að örva og hvetja til faglegrar samvinnu fyrirtækjanna um öryggismál, tæknilausnir og fleira, í því skyni að auka gæði þjónustunnar og bæta rekstur fyrirtækjanna.

Nýjast