Von á 8.000 manns á Landsmót skáta

Líf og fjör verður á Hömrum næstu daga. Mynd/Akureyrarbær
Líf og fjör verður á Hömrum næstu daga. Mynd/Akureyrarbær

Landsmót skáta fer fram að Hömrum við Akureyri þessa dagana en mótið hófst í gær og stendur fram yfir næstu helgi. Einkennisorð mótsins er Í takt við tímann. Á mótinu verður flakkað um í tíma og rúmi og þátttakendur lifa og vinna í fortíð, nútíð og framtíð. Dagskráin er með hefðbundnu sniði en þó með nýjum áherslum til að tengja við þema mótsins og staðhætti að Hömrum. 

Um næstu helgi er reiknað með að um 6-8.000 manns verði á Hömrum en þátttakendur eru á aldrinum 10-22 ára og koma frá tuttugu löndum. Um 600 erlendir þátttakendur eru á mótinu en skátahreyfingin er stærsta æskulýðshreyfing í heimi og alþjóðastarf mikilvægur hluti af starfinu.

Boðið verður upp á fjölskyldubúðir þar sem foreldrar, gamlir skátar og allir þeir sem áhuga hafa geta komið og notið útivistar og samveru og um leið upplifað töfra skátastarfsins. Bandalag íslenskra skáta (BÍS) stendur að mótinu og nánari upplýsingar um mótið má sjá á www.skatamot.is.

Nýjast