Völuspá, útgáfa sendir frá sér bækur tengdar Eyjafirði

Út eru komnar hjá VÖLUSPÁ, útgáfu, bækurnar; Dagur Austan - Ævintýramaðurinn Vernharður Eggertsson, eftir Þorlák Axel Jónsson og Kvistagöt og tréhestar - Eyfirskar kímni- og gamansögur, í ritstjórn Jóns Hjaltasonar. "Þetta er saga Akureyrar og Eyjafjarðar á perónulegum nótum. Fræðist um Eyþór í Lindu, Gunna sót og Skapta í Slippnum, knattspyrnusögu Leifturs á Ólafsfirði og raunir bóndans á Tittlingi," segir m.a. á kápu bókarinnar Kvistagöt og tréhestar.  

Dagur Austan er ævisaga Vernharðs Eggertssonar er fæddist á Oddeyri, ólst upp á Akureyri en gerðist ævintýramaður á fullorðinsárum - barðist meðal annars í borgarastríðinu á Spáni -  var sjómaður, og sigldi um öll heimsins höf, rithöfundur og skáld. Venni var líka utangarðsmaður og fyrstur Íslendinga til að brjótast út af Litla-Hrauni. Þorlákur Axel hefur víða leitað fanga og m.a. verið í sambandi við sagnfræðinga í Kanada, Rússlandi og Danmörku. Hann hefur líka rætt við fjölda fólks er man Venna, þar á meðal börn hans en þrátt fyrir allt sitt lánleysi var Venni í sambúð um tíma. Furðulegt nokk, þá er Dagur Austan fyrsta ævisaga íslensks utangarðsmanns er út kemur hérlendis, einvörðungu byggð á heimildum. Þetta vekur upp spurningar?

Hver er tilgangurinn með slíkum skrifum? Hversu langt á að ganga að nota vitnisburð fólks, til dæmis barna Venna? Viðfangsefnið er jú viðkvæmt; fjallað er um afbrotaferil Venna og drykkjuskap, í bland við ævintýrin sem hann lenti í. Á að segja allt? Fylgdi Þorlákur þeirri stefnu eða hélt hann einhverju fyrir sig, sem hann taldi of gróft eða viðkvæmt fyrir eftirlifendur að lesa um? Þess skal loks getið að Dagur Austan er fyrsta ritið í ritröðinni, Safni til sögu Eyjafjarðar og Eyfirðinga, en þar ræðir um bækur sem eiga að vera allt í senn spennandi, fróðlegar og skemmtilegar - og raunverulegur keppinautur krimmabókanna sem öllu tröllríða um þessar mundir.

Kvistagöt og tréhestar - Eyfirskar kímni- og gamansögur

Því hefur stundum verið haldið fram í fúlustu alvöru að Eyfirðingar séu leiðinlegir og Akureyringar þó allra verstir. Kvistagöt afsannar þessa goðsögn en megintilgangur hennar er að skemmta. Í Kvistagötum er að finna ótal gamansögur af nafngreindum Eyfirðingum en mikið er upp úr því lagt að nafngreina, annars missir frásögnin meira og minna marks. Enda ekki ósatt orð að finna í bókinni.

Þetta er í fyrsta sinn sem sögunum af Matthíasi Jochumssyni er safnað á einn stað, lögmennirnir Ásmundur Jóhannsson Svarti og Árni Pálsson lenda í hremmingum, prestarnir Hannes Örn Blandon og Svavar Alfreð segja hrakfallasögur, Hólmfríður Andersdóttir lendir í einkennilegu umferðarslysi og Bjössi bláþráður er útnefndur stríðnasti Eyfirðingurinn - pólitíkin á fulltrúa í Jóni Má skólameistara, Gísla Braga og fleirum - og þær eru óborganlegar sögurnar af þjóðsagnapersónunum, Gunna Sót, Skapta í Slippnum og Eyþóri í Lindu.

Nýjast