Í gegnum tíðina hefur mikill meirihluti nemenda í hársnyrtiiðn verið konur og svo er raunar enn. En karlarnir hafa sótt í sig veðrið í þessum efnum, í það minnsta eru nú fjórir karlar af ellefu nemendum á annarri önn í hársnyrtiiðn í VMA.
Alex Þórarinn Guðbjartsson, sem er frá Bolungarvík en hefur búið síðustu fjögur ár á Akureyri, segir að áhuginn á að læra hársnyrtiiðn hafi kviknað fyrir um tveimur árum. Eflaust hafi þar haft eitthvað að segja að móðir hans er hársnyrtir. Hann segir námið vera fjölbreytt og nemendur fái tækifæri til þess að prófa sig áfram í mörgum ólíkum hlutum.
Natan Nick Sverrisson segir það hafa verið nokkurri tilviljun háð að hársnyrtiiðn hafi orðið fyrir valinu en námið hafi komið sér skemmtilega á óvart, sérstaklega gaman væri að klippa og raka. Natan ólst upp á Blönduósi en hefur undanfarin fjögur ár búið á Akureyri.
Ívar Örn Haraldsson, sem er frá bænum Svarfhóli í Laxárdal í Dalasýslu, segist hafa fengið áhugann á hársnyrtiiðn fyrir nokkrum árum og byrjað að fikta í þessu heima. Í sínum huga hafi ekki verið spurning hvaða nám skyldi velja í framhaldsskóla – og hann sjái sannarlega ekki eftir að hafa valið þessa námsbraut.
Dalvíkurinn Baldvin Ari Ögmundsson segist hafa ákveðið það strax í níunda bekk Dalvíkurskóla að hann ætlaði að læra hársnyrtiiðn. Sjálfur segist hann hafa verið óhræddur að prófa sig áfram í hártískunni, hann hafi í fjögur ár skartað síðu hári, svo hafi hann látið krúnuraka sig – og allt þar á milli. Baldvin segist hafa endanlega sannfærst um að fara í þetta nám eftir námskynningu í VMA. Hann segir námið skemmtilegt og fjölbreytt og nemendur fái að njóta sín í náminu. Strax á þriðju önn byrji nemendur að vinna að hluta til á stofum og fái þá gleggri sýn á starfið og verknámið aukist síðan stig af stigi eftir því sem lengri líði á námið.
Heimasíða VMA segir frá