Vinna við fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar gengur vel

Vinna við fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar gengur vel og gert er ráð fyrir að áætlunin verði lögð fram til umræðu í bæjarráði í vikunni. Í kjölfarið fer hún síðan í tvær umræður í bæjarstjórn eins og lög gera ráð fyrir. Í september fengu deildir og stofnanir að vita hve miklum fjármunum hver málaflokkur fengi úthlutað.  

Sú skipting byggir fyrst og fremst á þeim fjármunum sem ætla má að sveitarfélagið hafi úr að spila á næsta ári og tekur síðan mið af rekstrarkostnaði hvers málaflokks á þessu ári auk fyrirsjáanlegrar kostnaðaraukningar á næsta ári. Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri segir að á síðustu vikum hafa nefndir bæjarins verið að samþykkja tillögur að fjárhagsáætlun fyrir einstaka málaflokka. „Stofnanir og vinnustaðir bæjarins hafa lagt sig fram um að laga starfsemina að þeirri þröngu stöðu sem við erum í. Almennt má segja að sú vinna hafi gengið vel og þeir starfsmenn sem að henni hafa komið eiga hrós skilið," segir bæjarstjóri. 
„Vinnan hefur miðað að því að finna leiðir til þess að verja þá góðu þjónustu sem bærinn almennt veitir þrátt fyrir minni tekjur. Þetta verkefni höfum við nálgast með því að draga úr kostnaði á öllum sviðum án þess að leggja af starfsemi eða segja upp fólki. Það er hins vegar ljóst að sumstaðar hefur þurft að leggja fram tillögur um takmarkaðri aðgang þjónustu en áður," segir Hermann Jón.  Sem dæmi um það má nefna tillögu skólanefndar um að sumarlokun leikskóla á næsta ári verði fjórar vikur í stað tveggja nú.

Meðan endanlegt frumvarp er ekki komið fram er ekki hægt að gefa upp neinar tölur að sögn bæjarstjóra, en þær munu líta dagsins ljós í bæjarráði í vikunni.  

Nýjast