Vill viðræður um samstarf hjálparstofnana og fjölskyldudeildar

Á fundi Almannaheillanefndar Akureyrar í lok síðasta mánaðar var farið yfir stöðu mála, m.a. varðandi aðstoð við fólk í erfiðleikum. Fram kom að af hálfu Almannaheillanefndar er áhugi á að koma á viðræðum um samstarf milli Mæðrastyrksnefndar, Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar og fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar.  

Fram kemur í fundargerð Almannaheillanefndar að mikið hafi verið sótt í fatamarkað Rauða krossins en Akureyrardeildin á enn fjármagn til að leggja í samfélagsverkefni. Mæðrastyrksnefnd úthlutaði skömmu fyrir páska til margra aðila en nefndin er að tæma sjóði sína. Stöðug aukning er í aðstoð frá Hjálparstarfi kirkjunnar og á landsvísu er um að ræða tvöföldun frá því fyrir hrun. Hjá búsetudeild er margt fólk ráðið til starfa í sumarafleysingar. Umsóknir voru þó ekki eins margar og búist hafði verið við. Stígandi hefur verið í þungum málum hjá Heilsugæslustöðinni. Búast má við að álag aukist hjá búsetudeild sem og Heilsugæslu vegna sumarlokana annarra stofnana. Fjárhagsaðstoð í mars lítur út fyrir að verða meiri en áður og verður væntanlega um 7 milljónir. Unnið er að ráðningu fjármálaráðgjafa. Velt var upp spurningu um hvort ekki þurfi að koma á betri tengingum milli vitneskju um fjármálastöðu og heilsufars og skoða hvort hægt sé að grípa inn í. Vart hefur orðið við aukið álag á skólasálfræðinga. Ennfremur kemur fram í fundargerðinni að á FSA sé ástandið í mars svipað og í mánuðinum á undan. Viðvarandi aukning virðist vera í ásókn í bráðaþjónustu geðlækna. Greina má þreytumerki hjá læknum og erfitt er að fá nýja til starfa í stað þeirra sem hætta.

Nýjast