Þann 19. janúar 2016 lenti á Akureyrarflugvelli hópur flóttafólks, fjórar fjölskyldur frá Aleppo í Sýrlandi. Tvær fjölskyldur búa enn á Akureyri en hinar tvær eru búsettar á höfuðborgarsvæðinu.
Safaa Almamou er ein þeirra Sýrlendinga sem enn búa á Akureyri. Hussein eiginmaður hennar starfar sem pípulagningamaður hjá Áveitunni á Akureyri og eiga þau tvo syni. Omar, eldri sonurinn, var um tíu mánaða gamall þegar fjölskyldan kom til Akureyrar, og yngri sonurinn, Yaaman, fæddist á Akureyri árið 2017.
Þann 19. desember nk., um níu árum eftir að Safaa kom til Akureyrar með eiginmanni sínum og eldri syni þeirra, brautskráist Safaa frá VMA sem sjúkraliði og einnig lýkur hún stúdentsprófi. Hún hóf nám á fjölgreinabraut í VMA árið 2021 og tók skólaárin 2021/2022 og 2022/2023 nokkra grunnáfanga, m.a. íslensku, stærðfræði og ensku, sem undirbúning fyrir sjúkraliðanámið. Sjúkraliðanámið hóf Safaa árið 2023 og er sem fyrr segir að ljúka því með formlegum hætti fyrir jól.
Ótrúlegur viljastyrkur, atorkusemi og dugnaður hefur einkennt nám Safaa í VMA. Það er meira en að segja það fyrir fólk af erlendum uppruna með gjörólíkan bakgrunn og gjörólíkt móðurmál (þ.m.t. ritmál) að skilja og tala íslenskuna eins vel og Safaa gerir.
Fyrst eftir að flóttafólkið kom til Akureyrar frá Aleppo var það í íslenskunámi í Glerárskóla en síðan færðist það niður í SÍMEY – Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og þar tók Safaa þau fjögur íslenskunámskeið sem í boði voru. Frá byrjun var hún ákveðin í því að læra íslenskuna, bæði rit- og talmál, til þess að geta fótað sig sem best í íslensku samfélagi. Til marks um það þýddi hún yfir á móðurmál sitt arabísku texta dag- og vikublaða og auglýsingabæklinga sem hún komst yfir. Smám saman jókst orðaforðinn í íslensku og skilningurinn á tungumálinu.
Safaa segir það hafa verið stórt skref fyrir sig að fara í nám í VMA – fyrst í undirbúningsáfanga fyrir sjúkraliðanámið sem hafi nýst vel til stúdentsprófs og síðan í sjúkraliðanámið í framhaldinu. Ekki hafi alltaf verið auðvelt að skilja og tileinka sér ýmis faghugtök í námsgreinum í sjúkraliðanáminu eins og t.d. lífeðlisfræði en með mikilli vinnu og ástundun hafi henni tekist að komast yfir ótal þröskulda.
Heimasíða VMA sagði fyrst frá
Til viðbótar við bóklegt nám hefur Safaa verið í starfsnámi á heilbrigðisstofnunum á Akureyri, eins og áskilið er í sjúkraliðanáminu. Sem stendur er hún í starfsþjálfun á lyfjadeild Sjúkrahússins á Akureyri.
Í þrjú ár starfaði Safaa í eldhúsinu í Naustaskóla á Akureyri og hluta þess tíma stundaði hún jafnframt nám í VMA en sl. vetur lagði hún alla áherslu á námið. Þeir uppskera sem sá, nú er í augsýn uppskera þeirrar miklu vinnu sem Safaa hefur lagt á sig í sjúkraliðanáminu/námi til stúdentsprófs í VMA.