Vilja reiðhjólin aftur í strætó

Hverfisnefnd Naustahverfis á Akureyri skorar á strætó að endurskoða hjólabann í strætisvagna bæjarins. Margir íbúar hverfisins hafa nýtt sér að hjóla niður í bæ en taka svo strætó heim. Frá og með 1. maí voru reiðhjól bönnuð en Stefán Baldursson, forstöðumaður Strætisvagna Akureyrar, sagði í samtali við Vikudag að fólk hafi misnotað fríðindin. „Undanfarið hefur það farið vaxandi að bæði krakkar og fullorðnir einstaklingar láti sig renna niður Brekkuna og fara til baka með strætó, jafnvel nokkrar ferðir á dag.“

Hann segir hugmyndina með reiðhjól í strætó upprunanlega hafa verið hugsaða sem neyðarúrræði fyrir farþega en sé orðið að einhverjum leik. "Þegar margt fólk er í vögnunum og reiðhjól meðferðis er vont að ganga um vagninn og oft eru hjólin óhrein. Þá geta óhreinindi borist í föt og sæti. Þannig að þetta hefur valdið bæði töfum og óþægindum og því var ákveðið að fara þessa leið,“ segir Stefán.

throstur@vikudagur.is

Nýjast