Hnjúkur efh. hefur óskað eftir að fá úthlutað eða leigða lóð á Akureyri til að reisa á iðnaðarmanníbúðir.
„Lengi hefur verið afar erfitt að fá gistingu fyrir iðnaðarmannahópa sem koma hingað til bæjarins eða nágrennis til tímabundinnar vinnu. Hugmyndin felst í því að reisa snyrtilegar vinnubúðareiningar þar sem fyrirtæki geti leigt tímabundin gistirými fyrir starfsfólk,“ segir í umsókn Hnjúks. Einnig segir að hver og einn starfsmaður hefði sér herbergi með aðgangi að salerni, sturtu og lágmarkseldunaraðstöðu. Sameiginleg eldunaraðstaða ásamt setustofu yrði síðan í sameiginlegu rými.
Margar stórar framkvæmdir eru þegar í gangi eða í burðarliðnum, nefna má að að byggt verður hjúkrunarheimili á Akureyri innan tíðar og eins er fyrirhugað að hefja framkvæmdir við stækkun Sjúkrahússins á Akureyri, fjöldi hótelbygginga sé í gangi eða fyrirhugaður auk annarra framkvæmda. Skortur sé á húsnæði fyrir iðnaðarmenn og þá sem starfa í byggingariðnað og koma annars staðar frá.
Húsnæðið yrði leigt til lögaðila og yrði ekki gistirými fyrir ferðamenn eða aðra sem ekki eru að sækja vinna inn á svæðið.