Viðtalið - Hermann Jóhannesson nýr umdæmisstjóri í umdæmi 3 Isavia á Akureyrarflugvelli

Hermann Jóhannesson, nýr umdæmisstjóri í umdæmi 3 Isavia á Akureyrarflugvelli  Myndir Páll A Pálsson…
Hermann Jóhannesson, nýr umdæmisstjóri í umdæmi 3 Isavia á Akureyrarflugvelli Myndir Páll A Pálsson og MÞÞ

„Það er í góðu lagi að láta sig dreyma stórt. Og brjóta svo draumaverkefnin niður í bita sem hver og einn kemur á sínum tíma. 

Það var stór áfangi að fá nýja flugstöð fyrir millilandaflugið en líka mikilvægt að halda uppbyggingunni áfram,“ segir Hermann Jóhannesson sem ráðinn hefur verið umdæmisstjóri í umdæmi 3 Isavía á Akureyrarflugvelli. Hann tekur við störfum 1. júlí næstkomandi og flytur þá til Akureyrar frá Danmörku með fjölskyldu sinni.

Hermann og eiginkona hans Sunna Eldon Þórsdóttir læknir eiga tvö börn, Þórdísi Helgu sem verður 12 ára í haust og Hrafn, 8 ára. Þau hafa búið í Danmörku undanfarin tvö ár þar sem Sunna stundaði læknanám. Í Danmörku starfaði Hermann hjá LEGO sem Senior Manager. Þar áður höfðu þau búið í sjö ár í Svíþjóð fyrst bæði í námi en Hermann starfaði einnig hjá fyrirtækjunum Kuehne & Nagel og Dräger.

Langaði heim eftir níu ár úti

Hermann er fæddur á Egilsstöðum og bjó á yngri árum um skeið á Akureyri með fjölskyldu sinni og gekk þá í Lundaskóla. Hann kunni vel við sig í norðlenska andrúmsloftinu. Fjölskyldan flutti eftir nokkurra ára dvöl á frá Akureyri suður í Kópavog. Hermann lauk BSc námi í Vélaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og þaðan lá leiðin í meistaranám við Chalmers í Gautaborg þar sem hann nam iðnaðar- og rekstrarverkfræði.

„Eftir níu ár í útlöndum var okkur farið að langa heim til Íslands aftur,“ segir Hermann. Sunna mun verða í sérnámsgrunni hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri. „Það var í raun engin spurning um að horfa til Akureyrar þegar við fórum að huga að heimför. Við eigum tengingu hingað og líkar mjög vel við bæinn og bæjarbraginn sem er skemmtilegur,“ segir hann. Tveir bræðra hans, Hrafn og Erlendur Helgi, búa á Akureyri svo þar er hluti af hans fjölskyldu.

Hjördís Þórhallsdóttir fráfarandi sýnir Hermanni Jóhannessyni verðandi nýmálaða flugbrautina 

Rætur á Akureyri og Tjörnesi

Sunna á ættir að rekja til Akureyrar, en langaafi hennar var Jón Kristinsson sem lengi var forstöðumaður dvalarheimilisins að Skjaldarvík og síðar Hlíðar. Hann var einnig formaður íþróttafélagsins Þórs og formaður Leikfélags Akureyrar. Minn­is­varði var settur upp á Ak­ur­eyri um meint um­ferðarlaga­brot Jóns, en brotið varð til þess að rétt­ar­skip­an var breytt hér á landi og skilið með óyggj­andi hætti milli dóms- og fram­kvæmda­valds.

Rætur Hermanns liggja svo til Tjörness en langafi og langamma hans voru Rannveig og Jóhannes á Tungnavöllum. Þar fæddist líka amma Hulda, en hún giftist Hermanni, syni Margrétar og Guðmundar á Eyjólfsstöðum, austur í Berufirði.

Mikil lífsgæði

Það sem þó skipti ef til vill mestu við val á búsetu við flutning til Íslands var að hvorugu þeirra hugnaðist að sitja löngum stundum föst í umferðateppu. „Þegar maður hefur búið lengi erlendis lærir maður að meta á annan hátt hvað mestu skiptir í lífinu. Akureyri er bær sem hentar okkur mjög vel, hér er allt til alls, frábær útivistarsvæði, besta sundlaug í heimi, baðstaðir við bæjardyrnar og aðrir í seilingarfjarlægð,“ segir Hermann sem lofar einnig gönguferðir upp til fjalla. Á skömmum tíma sem hann hefur verið á Akureyri, „í starfsnámi“, hefur hann gengið upp í skálann Gamla, Skólavörðu og Þingmannahnjúk. Hann segist hlakka til að takast á við fleiri fjöll síðar, - „ég gekk líka á Himmelbjerget og var alveg sjö mínútur upp,“ segir hann sporskur. „Það er ómetanlegt hversu stutt er að fara út í náttúruna hér, það eru mjög mikil lífsgæði.“

Hermann segir fjölskylduna fulla tilhlökkunar að flytja til Akureyrar, en Sunna og börnin eru enn í Danmörku og Hermann á eftir að skjótast út og ljúka nokkrum verkefnum áður en þau koma alfarin.

Tækifærin fyrir hendi

Hermann segir mikla uppbyggingu hafa farið fram á Akureyri hin síðari ár og það skipti sköpum varðandi aukningu á millilandaflugi á Akureyrarflugvöll. „Við erum komin á góðan stað en megum ekki láta þar við sitja. Það eru alltaf fleiri verkefni sem bíða og hægt er að gera betur. Tækifæri eru fyrir hendi hér og svo ótalmargt sem er í boði fyrir erlenda ferðalanga. Það má heldur ekki gleyma mikilvægi bættra samgangna fyrir Akureyringa og Norðlendinga alla. Við þurfum að vera dugleg að kynna möguleikana og ég er sannfærður um að flug til Akureyrar eigi eftir að aukast á komandi árum,“ segir hann.

Nýjast