„Okkur fannst vinnan við ferðaskrifstofuna skemmtilegt og áhugavert verkefni,“ skrifa þeir Johan Jörundur Rask í 6. bekk og Patrekur Ingólfsson, 9. bekk Hríseyjarskóla, en nemendur í 6.-9. bekk skólans bjuggu til ferðaskrifstofu á dögunum í tengslum við þema sem var sjálfbærni og landafræði. Einnig héldu þeir nafna- og merkjasamkeppni.
Ferðaskrifstofan fékk nafnið Hrísey ferðir og allir völdu sér land til að fræðast um. „Við tengdum verkefnið í flest fög eins og íslensku, ensku, dönsku, UT, stærðfræði og fleira. Í íslensku gerðum við t.d. plaköt í ensku gerðum við meðal annars bæklinga um landið okkar og í UT gerðum við nafnspjöld og merki ferðaskrifstofurnar. Í stærðfræði skoðuðum við verð á flugi, gistingu og afþreyingu. Við gerðum tilboðspakka fyrir fjölskyldur og einstaklinga,“ skrifa þeir félagar á heimasíðu skólans.
Ferðaskrifstofa er ekki ferðaskrifstofa nema þar séu bæklingar
Í lokin var opnuð ferðaskrifstofa í Fjarbúðinni. Hægt var að hringja eða mæta til að kynna sér starfsemi ferðaskrifstofunnar og panta ferðir. Skemmst er frá því að segja að krakkarnir seldu helling af ferðum, fengu mikið af pöntunum, og viðskiptavinir voru ánægðir með góð kjör og fjölbreyttar ferðir.