Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Grænlandi efna til 18. málþingsins um heimskautarétt í Nuuk 22.–24. október
Í vikunni eftir að Hringborð Norðurslóða (e. Arctic Circle Assembly) fer fram í Reykjavík dagana 16.–18. október verður 18. málþingið um heimskautarétt haldið í Nuuk á Grænlandi 22.–24. október. Málþingið er skipulagt af Háskólanum á Akureyri og Ilisimatusarfik (Háskólanum á Grænlandi).
Stúdentar taka virkan þátt
UNAK og Ilisimatusarfik hafa um árabil átt farsælt samstarf, m.a. um fjarnám, stúdenta- og starfsmannaskipti auk sameiginlegra námskeiða, sérstaklega í heimskautarétti. Fjölmenn sendinefnd frá HA mun taka þátt í ráðstefnunni í Nuuk í ár, þar á meðal Antje Neumann dósent, sem er einnig brautarstjóri í heimskautarétti, Romain Chuffart, Nansen-prófessor í norðurslóðafræðum, Rachael Lorna Johnstone prófessor, Sara Fusco aðjúnkt og Helga Númadóttir, sérfræðingur hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
Verkefnið „New Insights in Polar Law“ sem styrkt er af Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndinni (IASC) gerir þar að auki fimm stúdentum í heimskautarétti kleift að ferðast til Nuuk og taka þátt í málþinginu ásamt fimm stúdentum frá Ilisimatusarfik. Stúdentarnir munu rýna í aðkallandi málefni í heimskautarétti, bera kennsl á þau sem þeim þykir mest áríðandi að rannsaka og kynna niðurstöður sínar fyrir öðrum þátttakendum.
Áhuginn á norðurslóðum eykst
Á málþinginu verður þétt dagskrá og virtir aðalfyrirlesarar taka til máls, en það eru dr. Sara Olsvig, alþjóðlegur formaður Heimskautaráðs Inúíta (e. Inuit Circumpolar Council), dr. Alan Hemmings, sérfræðingur í stjórnskipulagi Suðurskautslandsins og aðjúnkt við Gateway Antarctica, Háskólann í Canterbury, og Kenneth Høegh, sendiherra norðurslóðamála og formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins 2025-2027. Rúmlega 150 þátttakendur taka þátt í þinginu í ár. Yfirskrift þess er „Réttindi frumbyggja, sjálfsstjórn, valdefling og umhverfi“ sem miðar að því að varpa ljósi á óleystar og upprennandi áskoranir í heimskautarétti samhliða því að viðurkenna einstakt lagalegt, stjórnskipulegt, pólitískt og sögulegt samhengi Grænlands.
Rachael, sem er einn aðalskipuleggjenda viðburðarins, segir: „Grænland er í brennidepli í norðurslóðafræðum þessa dagana – til góðs eða ills – og það er ánægjulegt en kemur ekki á óvart hversu mikla athygli málþingið í ár hefur hlotið. Það þurfti meira segja að loka fyrir skráningar mánuði fyrr en áætlað var! Ég hlakka til að læra af þátttakendum þingsins, ekki síst aðalfyrirlesurunum þremur. Á sama tíma er stuðningur við nýja rannsakendur kjarni rannsóknarsamfélagsins í heimskautarétti og við erum alltaf opin fyrir nýjum hugmyndum. Ég er viss um að stúdentar „New Insights“ verkefnisins muni vekja reynslumeira fræðafólk til umhugsunar með sínu framlagi.“
Maria Ackrén, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Grænlandi og einn aðalskipuleggjanda, tekur undir með Rachael að Grænland hafi laðað að fjölda alþjóðlegra fræðimanna og stúdenta til þess að taka þátt í viðburðinum í ár. „Við viljum leggja áherslu á að málþing um heimskautarétt dragi að fræðafólk þvert á fræðasvið til þess að ræða þau álitamál sem efst eru á baugi tengd norður- og suðurskautinu. Málþingið tekur vel á móti fjölbreyttum þátttakendum og býður upp á einstakt tækifæri til þess að efla tengslanet og dýpka skilninginn frá mismunandi sjónarhornum.“
Málþingið mikilvægur vettvangur
Heimskautaréttur leggur áherslu á mikilvægi réttarkerfis og alþjóðasamvinnu til þess að takast á við áskoranir á norðurslóðum og Suðurskautslandinu. Frá stofnun þess árið 2008 hefur hið árlega málþing um heimskautarétt skapað sér sess sem mikilvægur vettvangur til þess að deila þekkingu grundvallaðri á rannsóknum og vísindum um fjölbreytt málefni er varða heimskautasvæðin. Á ári hverju dregur þingið að sér fjölmargt fræðafólk og sérfræðinga frá öllum heimshornum. 17. málþingið fór fram í Östersund, Sápmi í september 2024 og 19. málþingið verður haldið á Aotearoa, Nýja-Sjálandi árið 2026. Hverri ráðstefnu er fylgt eftir með birtingu ritrýnds greinasafns í Árbók um heimskautarétt (e. Yearbook of Polar Law) sem gefin er út af Brill.
Smellið hér fyrir frekari upplýsingar um málþingið.
https://www.unak.is/is/samfelagid/vidburdir/18th-polar-law-symposium