„Þetta hefur verið allra stærsta árið okkar hjá Golfklúbbi Akureyrar hingað til. Félagsmönnum hefur fjölgað umtalsvert og aðsókn var mjög góð, mikil aukning á milli ára,“ segir Steindór Ragnarsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar. Haustið hefur verið milt og gott og margir kylfingar hafa nýtt sér veðurblíðuna og eru enn að. Mikið líf er á Jaðarsvelli allt árið um kring.
Steindór segir að góð inniaðstaða með 6 golfhermum og stórum púttvelli hafi verið opnuð lok síðasta ár og hafi verið vel sótt fram að sumri, „og hún skapaði mikla og góða stemmningu í starfsemi klúbbsins,“ segir hann.
Notkun æfingasvæðis tvöfaldaðist
Í framhaldi af góðum vetri tók við einstaklega gott sumar með gríðarlegri aukningu í starfsemi klúbbsins. Æfingasvæðið Klappir var uppfært yfir í Trackman Range sem gefur kylfingum kost á að æfa sig og fá upplýsingar um höggið sitt á skjá sér við hlið. Einnig er hægt að spila golfvöll í þessum búnaði en slá boltann út á grasið, m.a. er hægt að spila Jaðarsvöll í Trackman sem er virkilega skemmtilegt að sögn Steindórs. „Notkun æfingasvæðisins tvöfaldaðist við þessa breytingu sem endurspeglar ánægju okkar gesta á búnaðinum frá Trackman.“
Steindór segir félagsmönnum hafi fjölgað mjög nú í ár og hafi aldrei verið eins mikil á milli ára. Alls eru um 1.060 meðlimir í GA og hefur þeim fjölgað um 16% nú í ár sem er töluvert umfram almenna landsfjölgun meðlima í golfklúbbum en hún var er einnig afar góð eða um 11%.
Steindór Ragnarsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar.
Völlurinn er vel sóttur
Alls voru 35.917 hringir spilaðir á Jaðarsvelli í ár eða á tímabilinu frá maí til september loka. Á sama tímabili í fyrra voru hringirnir 29.338. „Þrátt fyrir mikla fjölgun félagsmanna var völlurinn vel sóttur af ferðafólki, íslenskum sem og erlendum. Íslenskir kylfingar eru mjög duglegir að sækja Akureyri heim og spila golf ásamt því að njóta þess sem bærinn hefur upp á að bjóða, fjölda góðra veitingastaða, gistinga og auðvitað okkar glæsilegu Skógarbaða,“ segir Steindór.
Hann segir einnig áberandi að erlendir kylfingar heimsæki Ísland í auknum mæli til að spila golf, en um 400 erlendir kylfingar spiluðu á Jaðri í sumar sem er svipaður fjöldi og og árinu áður en þeim hefur farið fjölgandi með hverju ári.
Góðar aðstæður langt fram eftir hausti
„Síðustu vikur verið frekar mildar og góðar þannig að kylfingar eru fjölmargir enn að leika golf við góðar aðstæður og það eru líka líka einhverjir byrjaðir að nota golfhermana okkar,“ segir Steindór. Hermanir og aðstaða á Jaðri eru opin til kl. 22 alla virka daga og til kl. 19 um helgar. Einnig er veitingasalan Jaðar Bistri opin samhliða hermunum þar sem gestir geta pantað mat og fleira af matseðli. Við hvetjum sem flesta til að nýta sér það hvort sem það eru kylfingar eða ekki, hér eru allir velkomnir og um að gera að líta á okkur,“ segir Steindór.