Við slökktum bara á útvarpinu og héldum svo áfram

Aðalfundir starfsgreinadeilda Einingar-Iðju fóru fram á Hótel KEA í gær. Félagið skiptist í þrjár deildir, sem eru; Opinbera deild, Matvæla- og þjónustudeild og Iðnaðar- og tækjadeild. Í byrjun voru allar deildirnar þrjár saman á fundi þar sem Magnús Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, flutti fróðlegt erindi.  

Magnús Þór sagði m.a. frá koltrefjaverksmiðju sem mun kannski rísa hér á svæðinu í náinni framtíð, en undirritaður hefur verið rammasamningur milli Strokks Energy ehf. og Akureyrarbæjar um að komið verði á fót slíkri verksmiðju á Akureyri. Til að tryggja framgang verkefnisins er Akureyrarbær reiðubúinn að leigja lóð undir verksmiðjuna á Rangárvöllum. Strokkur hyggst vinna að undirbúningi þessarar hátækniverksmiðju sem framleiða mun koltrefjar með tækni sem krefst afhendingar rafmagns til stórnotenda og metangass. Ein af afurðum frá sorphaugum Akureyrar á Glerárdal er metangas sem verksmiðjan getur nýtt í sinni framleiðslu og mun Akureyrarbær tryggja Strokki forgang að nýtingu á a.m.k. 1,5 milljón m3 af metangasi á ári frá sorphaugunum. Akureyrarbær eða félag í hans eigu annast gerð gasleiðslu frá sorphaugum bæjarins á Glerárdal að verksmiðjunni auk uppsetningar alls virkjunarbúnaðar til vinnslu gassins.

Magnús Þór sagði einnig frá því að þegar kreppan skall á þá ákvað Atvinnuþróunarfélagið að heimsækja fyrirtæki hér við fjörðinn til að heyra í forsvarsmönnum þeirra, um hvernig staða þeirra væri. Hann sagði að staðan væri betri en þeir hefðu þorað að vona, en auðvitað væri hún misgóð eftir atvinnugreinum. Hann endaði erindið á því að vitna í einn atvinnurekanda á svæðinu sem sagði eftirfarandi þegar talað var um kreppuna. „Við slökktum bara á útvarpinu og héldum svo áfram." Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.

Nýjast