Það hefur verið líf og fjör í Framhaldsskólanum á Húsavík undanfarnar vikur. Leikfélagið Píramus og Þispa frumsýndi Brúðkaupssöngvarann 14. nóvember í Samkomuhúsinu á Húsavík. Eins og krökkunum í FSH er von og vísa hefur sýningin slegið í gegn. Enn eru nokkrar sýningar eftir og óhætt að fullyrða að engin ætti að láta þessa snilld framhjá sér fara.

Þau leggjast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, unglingarnir í Píramus og Þispu þegar kemur að vali á leikverki til að setja á fjalirnar en fyrir valinu varð verk sem aldrei hefur verið sett upp á Íslandi áður; Brúðkaupssöngvarinn sem byggir á samnefndri bíómynd Adams Sandlers frá tíunda áratug síðustu aldar. Það var því engu íslensku handriti fyrir að veifa en þá er líka gott að vera með Karen Erludóttur til halds og trausts. Hún hefur leikstýrt, og endurskrifað fyrir ungmenni á Húsvík í fleiri ár og virðist alltaf ná því besta út úr krökkunum. Undir hennar handleiðslu hefur leiklistarlífið í grunn og framhaldsskólanum á Húsavík blómstrað og sífellt fleiri vilja taka þátt. Karen segir sjálf að ferlið hafi verið krefjandi en ákaflega gefandi og skapandi.
„Þegar stjórn Píramusar og Þispu hafði fyrst samband við mig í lok sumars til að plana haustið var enn óljóst hvaða verk við myndum setja á svið í ár,“ rifjar Karen upp. „Það er svo sem ekkert óeðlilegt, en í þetta skiptið gekk mjög illa að finna verk sem hentaði, “ segir Karen og bætir við að eftir velgengni síðasta árs, þegar Með allt á hreinu var sett upp og sló svo rækilega í gegn hafi metnaður krakkana verið mikill.
Það hafi því verið ákveðin pressa sem krakkarnir lögðu sjálf á sig, sú hefð hefur skapast að setja upp söngleik og var snemma ákveðið að halda sig við það.
„Hópurinn er stór, sem útilokaði marga íslenska söngleiki því Píramus og Þispa vilja gefa öllum sem vilja tækifæri til að koma fram á sviði,“ útskýrir Karen.
Þegar ljóst var að íslenskir söngleikir myndu ekki duga hópnum, fór félagið að skoða erlenda titla. „En þar geta leyfismál verið afar flókin og kostnaðarsöm,“ segir Karen. Ýmislegt var kannað, en ekkert virtist ganga upp. Þá kom óvænt hugmynd: bíómyndin The Wedding Singer með Adam Sandler og Drew Barrymore.
„Þó myndin sé ekki hefðbundinn söngleikur, þá er hún bráðfyndin og hjartnæm saga með mörgum lögum og skemmtilegum karakterum,“ segir Karen. „Við héldum fyrst að það væri til sviðsútgáfa á íslensku, en það reyndist ekki rétt. Krakkarnir voru samt svo spenntir fyrir hugmyndinni að ég bauðst til að taka handritsgerðina að mér,“ segir hún.
Karen vann handritið í nánu samstarfi við stjórn félagsins og leikhópinn. „Útkoman er þessi skemmtilega sýning, þó ég segi sjálf frá, sem frumsýnd var 14. nóvember,“ segir Karen stolt.
Þó sagan sé sú sama og margir þekkja úr kvikmyndinni, ákvað hópurinn að gera hana að sinni eigin. „Krökkunum langaði til að hafa íslenska tónlist, svo við tókum öll lög úr myndinni út og settum inn önnur,“ segir Karen.
„Í myndinni gerist sagan árið 1985, en þar sem 10. bekkur Borgarhólsskóla var nýbúinn að sýna 80’s leikrit með íslenskum lögum, vildum við gera eitthvað öðruvísi.“
Karen var ekki í vandræðum með að aðlaga verkið að óskum lekhópsins og færði söguna til aldamótanna og úr varð tímalaus snilld sem nýtur sín vel á fölum Samkomuhússins á Húsavík.
„Tónlistin í sýningunni eru þessir frægu aldamótahittarar sem enn er verið að halda sérstaka tónleika fyrir. Þetta gaf sýningunni ferskan blæ og skapaði mikla gleði í hópnum,“ útskýrir Karen.
Karen leggur áherslu á að ferlið hafi verið sameiginlegt verkefni sitt og hæfileikaríku krakkanna í Píramus og Þispu. „Krakkarnir hafa lagt ótrúlega mikið í þetta – frá dansæfingum og söng til búninga og sviðshönnunar,“ segir hún. „Það er alltaf sérstakt að sjá hvernig hópurinn vex í gegnum svona ferli. Þau læra að vinna saman, taka ábyrgð og skapa eitthvað sem þau geta verið stolt af.“
Enn eru örfáar sýningar eftir og um að gera að drífa sig í leikhús enda engin svikin af sýningu Píramusar og Þispu og lofar Karen kvöldi fullu af gleði, tónlist og skemmtilegum karakterum. „Við gerðum þetta að okkar eigin – og það sést í hverju smáatriði,“ segir Karen að lokum.