Þar verða flutt erindi er lúta að rannsókn á áhrifum stórðiðjuframkvæmda á þennan aldurshóp, auk þess sem fjallað verður um stöðu hans í háskólasamfélaginu út frá þörfum atvinnulífins sem og framboði landsbyggðaháskólanna. Einnig verður á málþinginu umfjöllun um símenntun aldurshópsins 50+ út frá ýmsum sjónarhornum. Þá verður fjallað um starfmannastefnu stórfyrirtækis og bæjarfélags út frá aldurssamsetningu. Málþinginu stýrir Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra og félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir mun ávarpa málþingsgesti.
Árið 2005 skipaði félagsmálaráðherra sjö manna verkefnisstjórn til fimm ára sem hefur það meginmarkmið að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Verkefninu er ætlað að styrkja stöðu hópsins almennt m.a. með því að skapa jákvæða umræðu, bæta ímynd hópsins og móta farveg fyrir viðhorfsbreytingu í þjóðfélaginu. Með skipun vinnuhópsins vildu stjórnvöld leggja áherslu á nauðsyn þess að hafin væri stefnumótunarvinna í málefnum miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.
Verkefnisstjórnin hefur frá upphafi beint sjónum sínum að því að safna saman upplýsingum og styðja við rannsóknir sem varða málefni eldra fólks á vinnumarkaði. Í því skyni að koma upplýsingum á framfæri við stjórnvöld, fyrirtæki og fólkið í landinu hefur verkefnisstjórnin m. a. staðið fyrir röð morgunverðarfunda um málefni aldurshópsins haustin 2006 og 2007. Þá hefur það verið keppikefli verkefnisstjórnarinnar að gera öll þau gögn og fyrirlestra sem varða málaflokkinn sem aðgengilegust og má segja að stór áfangi sé nú í höfn með því að opnuð hefur verið ný heimasíða fyrir verkefnisstjórnina á slóðinni http://50.felagsmalaraduneyti.is