Fullgildir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Húsavíkur og nágrennis voru 1.300 í árslok 2007 og hafði fjölgað milli ára. Þar af voru 546 konur eða 42% þeirra sem greiddu til félagsins og 754 karlar eða 58% þeirra sem greiddu til félagsins. Fjárhagsleg afkoma félagsins var góð á árinu 2007 líkt og undanfarin ár. Tekjuafgangur varð af öllum sjóðum félagsins. Alls nutu 294 félagsmenn bóta frá sjúkrasjóði félagsins á árinu. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra sjúkrabóta og styrkja 11 milljónum. Á árinu 2007 fékk 201 félagsmaður greiddar kr. 5,9 milljónir í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Hér er um að ræða fræðslusjóði sem félagið á aðild að s.s. Landsmennt, Ríkismennt, Sjómennt og Sveitamennt. Þrátt fyrir að atvinnuástandið hafi verið með ágætum á síðasta starfsári greiddi Vinnumálstofnun félagsmönnum í Verkalýðsfélaginu alls um 30 milljónir í atvinnuleysisbætur.
Samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Starfsgreinasamband Íslands á síðasta ári eru félagsmenn Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis ánægðastir með sitt félag innan sambandsins. Spurt var: Á heildina litið finnst þér stéttarfélagið standa sig vel eða illa? Alls sögðu 96% svarenda að félagið stæði sig vel. 4% tóku ekki afstöðu, segir ennfremur í fréttatilkynningu frá VH.