Verkalýðsfélagið og Verslunar- mannafélagið á Húsavík sameinast

Á aðalfundi Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis í gær var samþykkt tillaga um að sameinast Verslunarmannafélagi Húsavíkur og verður Aðalsteinn Á. Baldusson formaður VH, formaður nýja félagsins. Stofnfundur nýja félagsins verður 1. maí n.k. Fundurinn í gær var því síðasti aðalfundur Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis. Tillaga að nafni á nýja félagið var samþykkt samhljóða sem og nýtt merki. Almenn ánægja kom fram á aðalfundinum í gær með starfsemi félagsins sem sjaldan eða aldrei hefur verið eins öflug og um þessar mundir. Fundarmenn voru jafnframt mjög ánægðir með niðurstöðu könnunar Capacent Gallup sem staðfestir að Verkalýðsfélag Húsavíkur og nágrennis er eitt af virtari stéttarfélögum landsins, segir í fréttatilkynningu.

Fullgildir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Húsavíkur og nágrennis voru 1.300  í árslok 2007 og hafði fjölgað milli ára. Þar af voru 546 konur  eða 42% þeirra sem greiddu til félagsins og 754 karlar eða 58% þeirra sem greiddu til félagsins. Fjárhagsleg afkoma félagsins var góð á árinu 2007 líkt og undanfarin ár. Tekjuafgangur varð af öllum sjóðum félagsins. Alls nutu 294 félagsmenn bóta frá sjúkrasjóði félagsins á árinu. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra sjúkrabóta og styrkja 11 milljónum. Á árinu 2007 fékk 201 félagsmaður greiddar kr. 5,9 milljónir í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Hér er um að ræða fræðslusjóði sem félagið á aðild að s.s. Landsmennt, Ríkismennt, Sjómennt og Sveitamennt. Þrátt fyrir að atvinnuástandið hafi verið með ágætum á síðasta starfsári greiddi Vinnumálstofnun félagsmönnum í Verkalýðsfélaginu alls um 30 milljónir í atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Starfsgreinasamband Íslands á síðasta ári eru félagsmenn Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis ánægðastir með sitt félag innan sambandsins. Spurt var: Á heildina litið finnst þér stéttarfélagið standa sig vel eða illa? Alls sögðu 96% svarenda að félagið stæði sig vel. 4% tóku ekki afstöðu, segir ennfremur í fréttatilkynningu frá VH.

Nýjast