„Við hjá Akureyrarbæ erum afskaplega ánægð með að búið er að auglýsa útboð fyrir hjúkrunarheimilið,“ segir Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri Skipulagssviðs Akureyrarbæjar.
Framkvæmasýslan – Ríkiseignir hefur fyrir hönd félags- og húsnæðismálaráðuneytis óskað eftir leigutilboðum undir hjúkrunarheimili við Þursaholt á Akureyri. Verkefnið snýr að því að byggja og fullgera hjúkrunarheimili og leigja til Ríkiseigna, sem mun áframleigja til rekstraraðila hjúkrunarheimilisins.
Frestur rennur út um miðjan apríl
Óskað er eftir húsnæði sem rúmar 140 hjúkrunarrými. Viðmið heilbrigðisráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila gera ráð fyrir að lágmarki 65 brúttófermetrum á hvert hjúkrunarrými. Húsnæðisþörf með sameiginlegum rýmum er því um 9.100 fermetrar brúttó. Húsnæðið má vera stærra og jafnframt hýsa aðra starfsemi sem samrýmist starfsemi hjúkrunarheimilis, og telst sem stoðþjónusta við íbúa hjúkrunarheimilisins.
Lóðin við Þursaholt afhendist í því ástandi sem hún er í nú. Frestur til að skila inn tilboðum í verkefnið rennur út 17. apríl næstkomandi.

Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri Skipulagssviðs Akureyrarbæjar ræðir við Ingu Sæland ráðherra og Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri þegar samningur um uppbyggingu hjúkrunarheimilis við Þursaholt var undirritaður í fyrravor. Nú er búið að bjóða verkið út. Á myndinni sést í þá Karl Erlendsson formann Félags eldri borgara á Akureyri og Björn Snæbjörnsson formann Landsambands eldri borgara.