Um 60 manns sóttu upplýsingafund um Blöndulínu 3, stöðu verkefnisins og næstu skref, sem haldinn var í Ráðhúsinu á mánudag. Bæjarstjórn fjallaði síðan um málið á fundi sínum í gær.
Þar var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi sem varðar legu og útfærslu háspennulína í landi Akureyrarbæjar, þar á meðal Blöndulínu 3, til norðurs frá Rangárvöllum.
Gert er ráð fyrir að línan verði ofanjarðar til bráðabirgða en að henni verði komið í jörðu eins fljótt og auðið er án kostnaðarþátttöku sveitarfélagsins. Um er að ræða tímabundna lausn til þess að tryggja raforkuöryggi á svæðinu. Framtíðarlausn flutningskerfis raforku verður eftir sem áður að hafa háspennulínur í jörðu til samræmis við stefnu stjórnvalda þar um.
Línan verður byggð upp með trémöstrum frá Rangárvöllum að gili við Hrappsstaðaá í landi Kífsár en stálmöstur taki þar við að sveitarfélagamörkum. Þegar forsendur hafa skapast til að breyta loftlínu í jarðstreng er gert ráð fyrir að línan verði lögð í jörðu.
Breytingartillagan var samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum. Bæjarfulltrúar lögðu sérstaka áherslu á mikilvægi þess að hefja formlegt samráðsferli við íbúa og aðra hagsmunaaðila svo taka megi tillit til þeirra ábendinga sem komu fram á upplýsingafundinum á mánudag og jafnframt að fá skýr svör Landsnets við þeim.
Gert er ráð fyrir því að framkvæmdin gerist í skrefum þar sem ákveðnar forsendur þarf að uppfylla áður en Blöndulína 3 verður að lokum lögð í jörð. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta nýtni og flutningsgetu raforkukerfisins, auka afhendingargetu og tryggja stöðugleika kerfisins.
Samhliða samráðsferli verður unnið að samkomulagi við Landsnet þar sem tryggt verður með óyggjandi hætti hvernig staðið verður að lagningu jarðstrengs án kostnaðarþátttöku Akureyrarbæjar. Endanleg samþykkt skipulagsins er háð því að slíkt samkomulag náist.
akureyri.is sagði fyrst frá