Uppbygging fyrirhuguð á íþróttasvæði Þórs

Fyrirhuguð er uppbygging nýs íþróttahúss á félagssvæði Þórs. Lang líklegast er að húsið verði á svæð…
Fyrirhuguð er uppbygging nýs íþróttahúss á félagssvæði Þórs. Lang líklegast er að húsið verði á svæði frá stúkunni og meðfram Hamri. Mynd á vef Íþróttafélagsins Þórs

„Þetta er mjög stórt fyrir okkur, þessi ákvörðun og framkvæmd er löngu tímabær,“ segir Reimar Helgason framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Þórs á Akureyri um fyrirhugaða uppbyggingu á íþróttasvæði félagsins. Minnisblað um þá uppbyggingu var lagt fyrir bæjarráð í liðinni viku, en til stendur að byggja íþróttahús og félagsaðstöðu á svæðinu.

Vonir um að allar deildir og iðkendur æfi á félagssvæðinu

Reimar segir að eftir sé að velja endanlegan stað fyrir íþróttahúsið en langlíklegast sé að það verðir byggt út frá áhorfendastúku og meðfram Hamri. Hann segir að nýtt íþróttahús á félagssvæði skipti sköpum, en um 450 börn og ungmenni sem æfa hinar ýmsu íþróttir á vegum Þórs hafa ekki kost á að sækja æfingar á sitt félagssvæði þar sem ekkert íþróttahús er fyrir hendi. Fyrir vikið eru þau á ferð og flugi um allan bæ til að stunda æfingar. „Við bindum miklar vonir við að koma öllum iðkendum og öllum deildum heim á Þórssvæði í kjölfar þessarar framkvæmdar,“ segir Reimar.

Þarfagreining á núverandi nýtingu íþróttamannvirkja

Bæjarráð hefur farlið sviðsstjóra skipulagssviðs að vinna að undirbúningi að breytingu á deiliskipulagi svæðisins og þá munu starfsmenn bæjarins vinna að samkomulagi um uppbyggingu á félagssvæðinu í samræmi við minniblaðið. Þeim er ætlað að leggja drög að samkomulagi um uppbygginguna og leggja fyrir bæjarráð fyrir lok febrúar.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista lagði á fundi bæjarráðs fram bókun þar sem m.a. kom fram að nauðsynlegt væri að vinna ítarlega þarfagreiningu á núverandi nýtingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu, meta ávinning af bættri aðstöðu og leggja fram mat á auknum rekstrarkostnaði sem ætla má að hljótist af fyrirhugaðri uppbyggingu.

Nýjast