Verðlaun veitt fyrir nautgripa- og sauðfjárrækt á aðalfundi BSE

Aðalfundur Búnaðarsambands Eyjafjarðar var nýlega haldinn í Hlíðarbæ. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa og erinda voru veitt Hvatningarverðlaun BSE, auk verðlauna í nautgriparækt og sauðfjárrækt. Hvatningarverðlaun BSE hlaut Ingibjörg Bjarnadóttir á Gnúpufelli. Ingibjörg vildi ekki una kröfugerð ríkisins um að afréttarland í eigu Gnúpufells yrði úrskurðað þjóðlenda.  

Óbyggðanefnd úrskurðaði henni í vil og má segja að með baráttu sinni og þrautsegju hafi hún lagt sitt lóð á vogarskálarnar til réttindabaráttu landeigenda og verið þeim hvatning til að verja eignarétt sinn á landi. Verðlaun fyrir frábæran árangur í nautgriparækt hlutu þau Sigurður Gíslason og Ásrún Árnadóttir á Steinsstöðum II í Öxnadal.  Þau hófu þar búskap árið 1986 og hafa byggt upp myndarlega aðstöðu. Síðustu ár hefur Steinsstaðabúið verið meðal þeirra afurðamestu í héraðinu og árið 2009 var það hæst á svæði Búnaðarsambands Eyjafjarðar, þar sem meðalnyt eftir árskú var 6.741 kg.

Sauðfjárræktarverðlaun hlutu Sigríður Kristín Sverrisdóttir og Þór Jónsteinsson í Skriðu í Hörgárdal. Ekki er langt síðan skýrsluhald hófst að Skriðu, það var þegar Sigríður og Þór tóku við búinu af foreldrum Sigríðar, en fram að þeim tíma hefði fénu helst verið lýst sem harðgerðu, hraustlegu, nokkuð grófu og hörkulegu. Þau Sigríður og Þór hafa stundað öflugar kynbætur frá því þau hófu búskap, mikið notað sæðingar, keypt sér líffé úr nágrenninu sem og lengra að, og stefnt að því hörðum höndum að komast í fremstu röð í sauðfjárrækt. Verðlaunagripina smíðaði Ingibjörg Heiðarsdóttir (Íbba) listakona á Akureyri.

Nýjast