Alls var þinglýst 148 kaupsamningum vegna fasteignaviðskipta á Akureyri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en á sama tímabili í fyrra voru samningarnir 107. Veltan hefur sömuleiðis aukist, fyrstu þrjá mánuði ársins námu viðskiptin samtals 3,4 milljörðum króna, en á sama tímabili í fyrra var veltan á Akureyri samtals 2,6 milljarðar. Arnar Guðmundsson hjá Fasteignasölu Akureyrar segir að markaðurinn hafi verið nokkuð líflegur á þessu ári.
Margir hafa haldið að sér höndum á undanförnum misserum og þessar tölur sýna að markaðurinn er að taka við sér. Fólk hefur greinilega trú á því að efnahagsástandið sé að lagast og því óhætt að huga að fasteignaviðskiptum.
Sumarið lofar góðu
Já, ég geri ráð fyrir líflegum viðskiptum á næstu vikum, fyrirspurnirnar sem berast okkur þessa dagana benda eindregið til þess, Segir Arnar Guðmundsson.
Nánar um þetta í prentútgáfu Vikudags