Vélfræðingur og sjómaður haslar sér í völl í garðyrkju

Guðmundur Vilhjálmsson, eigandi og framkvæmdastjóri Garðvíkur.  Mynd: Heiðar Kristjáns.
Guðmundur Vilhjálmsson, eigandi og framkvæmdastjóri Garðvíkur. Mynd: Heiðar Kristjáns.

Vélavörur ehf, sem eru í eigu Guðmundar Vilhjálmssonar og konu hans Jóhönnu  Sigríðar Logadóttir, hafa gengið frá kaupum á 100% hlutafjár í Garðvík ehf  á Húsavík. Í tilkynningu, sem greint er frá á 640.is, segir að Garðvík sé rótgróið húsvískt fyrirtæki sem var stofnað af Hilmari Dúa Björgvinssyni árið 2000. Hilmar Dúi hefur rekið fyrirtækið á liðnum árum í félagi við hjónin Friðrikku Guðjónsdóttur og Gunnar Bóasson.

Rekstur Vélavara ehf hefur farið vaxandi á liðnum árum og eru kaupin á Garðvík meðal annars liður í að styrkja starfsemi félagsins og koma þaki yfir höfuðið á rekstrinum.

Garðvík og Vélavörur verða fyrst um sinn með aðskilinn rekstur, en Vélavörur munu flytja starfsemi sína að Kringlumýri 2 og deila þannig húsnæði með Garðvík. Guðmundur Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Vélavara ehf, tók við stöðu  framkvæmdastjóra Garðvíkur þann 1. apríl s.l.  en Hilmar Dúi verður yfirverkstjóri framkvæmda og þjónustu.

Guðmundur Vilhjálmsson er 49 ára gamall og vélfræðingur að mennt. Hann útskrifaðist frá Vélskóla Íslands árið 1994 og hlaut meistararéttindi í Vélsmíði árið 2001. Guðmundur útskrifaðist einnig sem Véliðnfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík árið 2000 og sem Rekstariðnfræðingur einnig frá Háskólanum í Reykjavík sama ár. Hann hefur lengst af starfað sem vélstjóri á stærri skipum, togurum og nótaskipum, síðast hjá HB Granda á árunum 2008-2015.

 

„Þetta leggst bara mjög vel í mig. Ég tel að við höfum verið að kaupa  gott fyrirtæki og ég er ánægður með að starfsmenn sem fyrir eru taka þessum breytingum  vel. Þá er mjög jákvætt að þeir sumarstarfsmenn sem við erum að ráða, hafa flestir starfað áður hjá Garðvík, þannig að þetta er allt meira og minna fólk með reynslu og oft langa í þessum störfum.

Svo er ég afskaplegur þakklátur fyrir jákvæð viðbrögð fólks,  það hefur rignt yfir mann hamingjuóskum og þetta gleður mig mjög mikið.

Það er líka mjög gott og raunar nauðsynlegt, að Hilmar Dúi, fyrrum eigandi, hefur skrifað undir ráðningarsamning við okkur, þannig að skrúðgarðyrkjufræðin verða áfram til staðar í fyrirtækinu. Og kannski eins gott, því sjálfur gæti ég ekki haldið lífi í blómi yfir eina helgi þó ég ætti lífið að leysa! Þannig að það er eins gott að fagmenn eru áfram á staðnum. Ég er fyrst og fremst rekstrarmaður.“

Sagði Guðmundur Vilhjálmsson á Húsavík. JS

 

Nýjast