Hallgrímur Arason veitingamaður á Bautanum segir að vissulega finni menn fyrir samdrætti, færri gestakomur voru á veitingastaðinn nú í haust samanborið við fyrrahaust. "Fólk heldur eðlilega að sér höndum, það er greinilegt, það er ekki margt sem almenningur getur skorið niður í sínum útgjöldum, en það er hægt að spara við sig í mat og fatnaði," segir Hallgrímur. Hann vonar að samdráttarskeið standi sem styst, en ómögulegt sé um það að segja nú. Bautamenn ætli sér að komast í gegnum kreppuna og væntanlega verði tilboð af ýmsu tagi á veitingastaðnum á næstunni til að laða að matargesti.
Arinbjörg Þórarinsson framkvæmdastjóri Greifans segir alla finna fyrir samdrætti, en bendir á að síðastliðin tvö ár hafi vart getað talist eðlileg, svo mikið hafi verið að gera, "þannig að við miðum okkur nú gjarnan við árið 2006 og þá sýnist mér við verða á svipuðu róli," segir hann. Greifinn hefur ekki hækkað verð á matseðli sínum og er ekki fyrirhugað að gera það fyrir áramót, "en þá verðum við að sjá til hvernig staðan verður. Auðvitað hafa öll okkar aðföng hækkað mikið, en þetta er okkar leið til að fá fólk á staðinn og það viljum við þó svo að við berum ekki eins mikið út býtum fyrir vikið," segir hann.
Jólahlaðborð veitingahúsanna eru nú að hefjast og segir Hallgrímur að Bautinn muni að þessu sinni bjóða upp á jóladisk, en á honum verður brot af því besta sem í boði er á jólahlaðborðum. Sýnist honum sem það muni falla gestum vel í geð. Arinbjörn segir að fleiri hafi bókað í jólahlaðborð nú en í fyrra, en Greifinn hefur tekið í notkun nýjan sal á annarri hæð veitingastaðarins "og mér sýnist sem hann trekki að," segir Arinbjörn. Hann bætir við að fólk ferðist nú mun minna til útlanda en áður og versli þar af leiðandi meira í heimabyggð, af því njóti kaup- og veitingamenn góðs nú í krepputíð.