Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla lokaðist vegna snjóflóða

Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla lokaðist fyrr í dag vegna snjóflóða. Bílum var ekið inn í snjóflóðið báðum megin frá, en engan sakaði og búið er að losa alla bíla sem festust í flóðinu. Víða um land er slæmt veður og ófærð. Á Norðurlandi er stórhríð á kafla austan Laugarbakka, á Þverárfjalli og á Siglufjarðarvegi. Það er einnig stórhríð á Öxnadalsheiði, Tjörnesi, Hólasandi og austur á Möðrudalsöræfi.  

Óveður er á Kjalarnesi og hálka. Óveður er einnig á Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði. Stórhríð er víða um allt norðanvert landið, allt frá Snæfellsnesi og Vestfjörðum astur á Möðrudalsöræfi. Það eru hálkublettir á Reykjanesbraut og á Grindavíkurvegi. Hálka og éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum en hálkublettir víðast hvar á Suðurlandi. Lyngdalsheiði er þungfær.

Á Vesturlandi er ófært á Fróðárheiði og í Arnarstapa. Stórhríð er á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Svínadal. Skógaströndin er þungfær. Óveður er á Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði. Á Vestfjörðum er stórhríð og ekki ferðaveður í Reykhólasveit, hálsunum í Barðastrandasýslu, á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Ennishálsi.

Á Austurlandi hefur veður að mestu gengið niður og verið er að opna Vopnafjarðarheiði og Vatnsskarð eystra. Víða er hált, og flughált á köflum í grennd við Egilsstaði. Vegagerðin biður fólk að hafa vara á sér gagnvart hreindýrum sem kunna að vera á vegum austanlands.

Nýjast