Á Norðurlandi vestra er víða hálka - raunar flughálka í Langadal - og sumstaðar skafrenningur. Á Norðaurlandi eystra er víða éljagangur og hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Hálkublettir eru í uppsveitum á Suðurlandi. Á Vesturlandi er hálka á Bröttubrekku, Vatnaleiði og á norðanverðu Snæfellsnesi. Snjóþekja er á Fróðárheiði en hálkublettir víðar. Óveður er í Staðarsveit. Á Vestfjörðum er víða einhver éljagangur, og hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Á Austurlandi er hálka á Möðrudalsöræfum, Jökuldal og Fjarðarheiði en hálkublettir eru á flestum öðrum leiðum. Á Suðausturlandi eru hálkublettir á kafla frá Mýrdalssandi og austur fyrir Lómagnúp.
Veðurspá: Norðan 13-18 m/s og snjókoma, en úrkomulaust að kalla sunnantil á landinu. Heldur hvassara á stöku stað. Bætir í vind og úrkomu seint í kvöld, norðaustan hvassviðri eða stormur í nótt og fram eftir morgundegi, áfram hvassast norðvestantil með snjókomu fyrir norðan og austan. Hiti um eða rétt undir frostmarki víðast hvar.