Varðskipsmenn fóru um borð í Axel

Landhelgisgæslan beitti í dag nýlegri heimild í lögum og sendi menn um borð í flutningaskipið Axel og yfirtók stjórn skipsins. Ófremdarástand skapaðist um borð í skipinu þegar vélstjóri skipsins neitaði að fara að fyrirmælum skipstjórans. Gæslumenn sigla nú skipinu til Akureyrar. Flutningaskipið Axel strandaði á Borgeyjarboða fyrir utan Höfn í Hornafirði upp úr klukkan átta í gærmorgun. Eftir að hafa komist á flot á nýjan leik kom í ljós að leki var í skipinu. Það var svo á miðnætti í gærkvöld sem boð komu frá skipstjóra Axels um að enn læki sjór inn í skipið. Þetta kemur fram á visir.is. Halldór Nellett hjá Landhelgisgæslunni, segir að á þessum tímapunkti hafi mönnum ekki litist á ástandið um borð í Axel. Samkvæmt öruggum heimildum fréttastofu Stöðvar 2 neitaði yfirvélstjóri skipsins að fara að tilskipun skipstjóra og dæla upp úr skipinu. Um tíma var óttast að vélstjórinn ætlaði sér að sökkva skipinu þegar hann tók að rausa um að eins færi fyrir flutningaskipinu og Titanic. Landhelgisgæslan sá því ekki annan kost í stöðunni en að yfirtaka skipið. Skipinu verður nú siglt til Akureyrar þar sem það mun leggjast að bryggju um klukkan eitt í nótt. Miklar líkur eru taldar á því að vélstjórinn verði kærður fyrir uppreisn en við því liggja þung viðurlögð.

Nýjast