Vaka sameinast verkalýðsfélögum á Akureyri

Formenn Einingar-Iðju, Félags byggingamanna Eyjafirði, Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni og Sjómannafélags Eyjafjarðar skrifuðu á ársfundi ASÍ undir samkomulag við Vöku á Siglufirði um sameiningu félaganna og einstakra deilda Vöku hinn 1. janúar 2008. Þetta er gert með þeim fyrirvara um að félagsmenn allra félaganna samþykki slíkar sameiningar. Hinn 8. nóvember nk. verður haldinn kynningarfundur á Siglufirði og kosningar um sameiningu munu fara fram 15. og 16. nóvember á Akureyri og dagana 15., 16. og 19. nóvember á Siglufirði. Talning atkvæða mun fara fram 20. nóvember og þá mun koma í ljós hvort af sameiningu verður um næstu áramót. Ef öll aðildarfélög að þessu samkomulagi samþykkja sameininguna þá færu þeir sem nú eru í almennu deild Vöku inn í Einingu-Iðju. Félögin skuldbinda sig einnig til að reka sameiginlega þjónustuskrifstofu á Siglufirði sem yrði mönnuð a.m.k. einum starfsmanni í 75% starfshlutfalli. Eining-Iðja mun sjá um rekstur hennar, en starfsmaðurinn yrði fjármagnaður í hlutfalli við stærð einstakra deilda og félaga. Núverandi starfsmaður Vöku mun halda áfram starfi sínu með öllum réttindum og skyldum.

Nýjast